Mun aldrei fyrirgefa sjálfum mér

Skúli Mogensen stofnaði flugfélagið WOW air árið 2012.
Skúli Mogensen stofnaði flugfélagið WOW air árið 2012. mbl.is/Rax

„Ég mun aldrei geta fyrirgefið sjálfum mér fyrir að hafa ekki gripið til aðgerða fyrr þar sem það er augljóst að WOW var ótrúlegt flugfélag og við vorum á réttri leið að gera frábæra hluti aftur.“

Þetta skrifar Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, í bréfi til starfsmanna í morgun eftir að tilkynnt var að starfsemi félagsins yrði hætt.

Hann segist óska þess heitast að meiri tími hefði verið til stefnu og að hægt hefði verið að gera meira „þar sem þið öll eigið skilið svo miklu meira og mér þykir ákaflega leitt að setja ykkur í þessa stöðu,“ heldur Skúli áfram í bréfi sínu.

Skúli skrifar að sama hvað verði sagt muni hann alltaf vera þakklátur fyrir að hafa unnið með svo „frábæru teymi og ég vona innilega að við getum munað afrek okkar sem brautryðjendur í lággjaldaflugrekstri og að hafa byggt upp ótrúlegt vörumerki á mettíma. Það í sjálfu sér er ekkert lítið afrek sem þið ættuð öll að vera stolt af.“

Í lok bréfsins þakkar Skúli farþegum WOW air sem hafi staðið með félaginu frá upphafi. Einnig þakkar hann samstarfsaðilum um allan heim sem og yfirvöldum. „Við reyndum öll okkar besta allt til enda.“

Svo skrifar Skúli:

„Síðast en ekki síst vil ég þakka ykkur, mínir kæru vinir, fyrir stórkostlegasta ferðalag lífs míns. Við munum alltaf vera WOW og ég mun aldrei gleyma ykkur. Ég vona og treysti því að þið munið aldrei gleyma WOW-andanum og að þið takið hann með ykkur í ykkar næsta ævintýri.

Takk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert