Reynum að láta farþegana ekki líða fyrir

Þröstur Söring, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Keflavíkurflugvallar, segir starfsfólki ekki líða vel …
Þröstur Söring, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Keflavíkurflugvallar, segir starfsfólki ekki líða vel með fréttir af gjaldþroti WOW air, en það reyni að láta farþega ekki líða fyrir. mbl.is/Anna Sigríður

Það var klukkan hálffimm í morgun þegar Þröstur Söring, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Keflavíkurflugvallar, mætti í vinnu sem hann komst að því að öllu flugi WOW air hefði verið aflýst. Þá voru þegar farnir að koma farþegar WOW air á flugvöllinn og segir Þröstur Isavia þegar hafa verið farið að gera ráð fyrir að taka á móti farþegum sem ekki kæmust í flug.

„Við sáum að það voru engar flugvélar á staðnum til að taka við þeim farþegum sem hingað komu. Þannig að við reiknuðum alveg með því að hér yrði ákveðið fjölmenni sem myndi ekki komast áfram og að við yrðum að bregðast við,“ segir hann. Starfsfólk Isavia sé vant að bregðast við slíkum aðstæðum. „Þegar hafa verið verkföll og þess háttar, þá höfum við verið tilbúin að taka við fjölda farþega sem eru stopp hér í einhverja klukkutíma.“

Vel gert hjá WOW air að láta farþega vita

Líkt og áður sagði frétti Þröstur ekki að flugi hefði verið aflýst fyrr en hann kom á Keflavíkurflugvöll, en hann segist hafa fengið þær fréttir er þangað kom að WOW air hafi verið búið að senda tilkynningu í bæði tölvupósti og SMS-skilaboðum til sinna farþega um að öllu flugi þann daginn hefði verið aflýst. „Ég verð bara að hrósa þeim fyrir það,“ segir hann. „Mér finnst vel gert hjá þeim að gera það, vegna þess að fyrir vikið þá komu færri hingað heldur en ella.“

Margir farþegar hafi fyrir vikið ekki lagt af stað út á flugvöll og fjöldinn á Keflavíkurflugvelli hafi því orðið minni en hefði þetta ekki verið gert. „Þá er allt miklu léttara fyrir okkur að bregðast við.“

Flugvélar frá WOW air áttu einnig að fara í loftið …
Flugvélar frá WOW air áttu einnig að fara í loftið síðdegis. Þröstur segist ekki gera ráð fyrir að sambærilegur fjöldi farþega komi á flugvöllinn þá, þótt væntanlega verði þar einhver hópur fólks sem mögulega hefur ekki fengið fréttir af gjaldþroti WOW air. mbl.is/​Hari

Spurður hvort Isavia hafi þurft að fjölga starfsfólki vegna tilkynningar WOW air í morgun segir hann svo ekki vera. „Við erum með tiltölulega vel þjálfað fólk sem kann að bregðast við og erum með ákveðna viðbragðsáætlun.“ Þannig séu alltaf til ákveðnar vistir, t.d. nóg af vatni sem hægt sé að dreifa til fólks og þá séu auka stólar í húsinu svo hægt sé að fjölga sætum gerist þess þörf. „Bara að fenginni reynslu, þá erum við með þetta hér í húsi. Þannig að við erum alltaf tilbúin.“

Vissulega hafi verið mikill fjöldi á flugvellinum um tíma, en allt hafi þó gengið vel og hratt greiðst úr langri röð sem myndaðist hjá Icelandair. Þröstur segir farþega WOW air líka hafa tekið þeim fréttum að flugi þeirra hafi verið aflýst af mikill ró. „Við höfum séð sitt lítið af hverju í þessari flugstöð og ég myndi segja að þessir farþegar sem hérna voru í morgun hafi verið alveg ótrúlega rólegir.“ Starfsmenn flugafgreiðslufyrirtækis hafi þá verið á staðnum með dreifibréf sem þeir réttu farþegum sem ekki höfðu fengið tölvupóstinn eða  SMS-skilaboðin. „Þeir fengu þá upplýsingar á þessu dreifibréfi hvað skyldi gera og fólk las bara skilaboðin og  gekk því næst bara yfir í röðina hjá Icelandair.“

Erfitt að vita af fólki vera að missa vinnuna

Flugvélar frá WOW air áttu einnig að fara í loftið síðdegis. Þröstur segist ekki gera ráð fyrir að sambærilegur fjöldi farþega komi á flugvöllinn þá, þótt væntanlega verði þar einhver hópur fólks sem mögulega hefur ekki fengið fréttir af gjaldþroti WOW air. „Við erum þó tilbúin í að það verði hérna einhver fjöldi fólks sem þarf að liðsinna með svipuðum hætti,“ segir hann.

Samgöngustofa sé þá búin að gefa út leiðbeinandi efni um hvernig farþegar eigi að bregðast við, hver réttur þeirra sé og hvar þeir eigi að leita upplýsinga. Slíkar upplýsingar hafa þegar verið settar upp víðs vegar á Keflavíkurflugvelli og svo mun starfsfólk Isavia afhenda farþegum WOW air dreifibréf þar sem þessar upplýsingar koma fram. „Við beinum því svo til fólks að tala við Samgöngustofu,“ segir Þröstur. „Það léttir á, þegar fólk veit að það hefur einhvern rétt er hugarangrið kannski minna.“

Töluvert álag var á starfsfólk Isavia í morgun og segir Þröstur starfsfólkið taka því býsna vel. „Það er auðvitað vant því að taka við fjölda fólks sem jafnvel er í uppnámi og þetta er tiltölulega rólegra núna.

Það sem gerir þetta hins vegar öðruvísi og erfiðara er að við vitum að fjölmargir einstaklingar sem vinna hjá WOW air eru núna að missa vinnuna. Margir þessara einstaklinga búa í samfélögunum hér í kring og margir starfsmanna WOW air eru vinir, ættingjar og félagar okkar starfsfólks hér. Þannig að við getum sagt að andrúmsloftið sé ekkert sérstaklega gott og okkur líður ekkert sérstaklega vel með þetta.“ Þau hafi enda vonað í lengstu lög að WOW air færi ekki í gjaldþrot. „Þannig að við erum slegin, en við reynum bara að horfa fram í raunveruleikann og láta farþegana alls ekki líða fyrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert