Símabann til að minnka kvíða

Símanotkun er bönnuð nema með leyfi kennara í Ölduselsskóla.
Símanotkun er bönnuð nema með leyfi kennara í Ölduselsskóla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Símalaus grunnskóli hljómar eflaust eins og sjálfsagður hlutur en í nútímasamfélagi er það ekki alltaf raunin. Stór hluti nemenda á síma sem þeir gjarnan nota á skólatíma. Þeir líkt og fullorðna fólkið á erfitt með að leggja þessa litlu tölvu frá sér. Í Ölduselsskóla í Breiðholti var brugðið á það ráð að banna nemendum að nota síma nema með leyfi kennara eins og kveðið er á um í reglum skólans. Ölduselsskóli er því formlega orðinn símalaus skóli frá og með deginum í dag.  

„Þetta hefur gengið nokkuð vel það sem af er degi,“ segir Birna Sif Bjarnadóttir skólastjóri Ölduselsskóla. Nemendur eiga þann kost að geyma símann í þar til gerðum símakassa, á skrifstofu skólans eða í læstum skáp. Nokkrir símar voru þó teknir í geymslu í morgun og ætla má að þeir nemendur hafi gleymt að símabannið hafi þegar tekið gildi.  

Unglingarnir límdir við skjáinn

„Kvíði og vanlíðan meðal nemenda hefur aukist. Þeir eru einangraðri og mikið um samskiptavanda milli nemenda út af samskiptamiðlum,“ segir Birna um helstu ástæðuna fyrir aðgerðunum. 

Birna segir menningu nemenda hafi breyst mikið á örstuttum tíma. Hún hafi komið auga á þetta þegar hún tók við stjórn skólans í haust en hún hafði kennt áður í skólanum nokkrum árum fyrr. „Þegar ég kom aftur snöggbrá mér að sjá unglingana gjörsamlega límda við símana sína í frímínútum. Við vorum á því að þetta þyrfti að laga. Börn þurfa að kunna að eiga samskipti hvort við annað án þess að gera það í gegnum símana,“ segir Birna. 

Nemendur geta geymt símann sinn í kassa í skólanum.
Nemendur geta geymt símann sinn í kassa í skólanum. Ljósmynd/Aðsend

Mikill stuðningur við verkefnið

Þegar kom til tals að gera eitthvað í stöðunni fundu kennarar og skólastjórnendur mikinn stuðning frá foreldrum sem voru meira en tilbúnir að hjálpast að við þetta verkefni. Til að byrja með var Eyjólfur Jónsson sálfræðingur sem vinnur náið með ungu fólki með tölvufíkn með fræðslu fyrir nemendur. Eftir það var haldið unglingaþing þar sem rætt var hvernig hægt væri að hjálpa unglingum að vera símalaus í skólanum. Unglingar í samráði við kennara og skólastjórnendur ákváðu reglur um símanotkun. „Við fengum frábæra hugmyndir frá þeim,“ segir Birna. 

Nemendur skólans ættu ekki að þurfa að láta sér leiðast því í skólanum er næg afþreying í boði. „Við erum með nóg af afþreyingu miðað við marga aðra skóla t.d. billjard-, borðtennis- og taflborð svo fátt eitt sé nefnt. Í dag var nemendaráðið með dagskrá í frímínútum og verður áfram með í nokkur skipti,“ segir Birna og bætir við að nemendur hafi óskað eftir lengri frímínútum til að ná að leika sér á þeim tíma.  

Símabannið gildir í öllum skólanum þó áherslan sé á unglingadeildina en þar er símanotkunin mest áberandi.

Foreldrar og kennarar eru hlynntir símabanni í skólanum.
Foreldrar og kennarar eru hlynntir símabanni í skólanum. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert