Lána flugfreyjum allt að 100 milljónir

Berglind Hafsteinsdóttir segist afar þakklát fyrir þann stuðning sem ASÍ …
Berglind Hafsteinsdóttir segist afar þakklát fyrir þann stuðning sem ASÍ hefur veitt FFÍ. Hér er hún ásamt Drífu Snædal við undirritun samkomulagsins. Ljósmynd/ASÍ

Alþýðusamband Íslands (ASÍ) mun veita Flugfreyjufélagi Íslands (FFÍ) lán upp á allt að hundrað milljónir króna til að félagið geti veitt félagsmönnum sínum lágmarksaðstoð vegna gjaldþrots WOW air. Þetta staðfesta Berglind Hafsteinsdóttir formaður FFÍ og Drífa Snædal formaður ASÍ í samtali við mbl.is.

Spurð frekar um eðli lánsins segir Berglind að það sé tekið með veði í launakröfum FFÍ sem fáist annað hvort greiddar úr þrotabúi WOW air eða úr ábyrgðasjóði launa. Þá segir hún lánið vera til þess tíma þegar þegar kröfurnar hafa verið greiddar.

Að síðustu segir Berglind við að FFÍ sé þakklátt ASÍ „fyrir ómetanlegan stuðning“ og bætir við: „Þetta sýnir fram á mikilvægi þess að stéttarfélög standi saman í heildarsamtökum.“

Stór hluti launa flugfreyja eru ekki forgangskröfur

Í samtali við mbl.is segir Drífa Snædal ASÍ vera að reyna að einfalda málið eins vel og hægt er fyrir flugfreyjur „þannig að það séu ekki einstaklingarnir sem þurfi endilega að standa í því að vera að gera kröfur.“

Spurð hvort málið sé ekki nokkuð flókið, sökum þess að launapakki flugfreyja sé settur saman á flókinn hátt svarar Drífa: 

„Jú, það er svolítið flókið. Það sem að kemur í ljós, sem er frekar slæmt, er að töluvert magn af því sem að flugfreyjur fá útborgað um hver mánaðarmót eru dagpeningar, einhverjir bifreiðastyrkir, og það er ekki varið. Það eru ekki forgangskröfur. Forgangskröfur eru grunnlaunin og greiðslur til þeirra í gegnum Flugfreyjufélagið reikna ég við að miðist við grunnlaun,“ segir Drífa og bætir við aðspurð að miðað sé við 305 þúsund í grunnlaun og þá eigi eftir að reikna skatt af þeirri upphæð.

„Svo eiga flugfreyjur inni orlof og yfirvinnu og ýmislegt annað, sem eru forgangskröfur alveg örugglega,“ segir Drífa og bætir við að það sé voðalega erfitt að reikna þetta út fyrir hvern og einn félagsmann.

„Þetta er svolítil neyðaraðgerð sem er verið að fara í núna, til þess að fólk sé ekki alveg launalaust um mánaðamótin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert