Strákarnir vildu ekki vera með

Ingibjörg Ýr Pálmadóttir var heiðruð í gær, en hún var …
Ingibjörg Ýr Pálmadóttir var heiðruð í gær, en hún var fyrst kvenna til að gegna hlutverki forseta nemendafélags MR fyrir 70 árum. Haraldur Jónasson

„Ég held ég hafi ekki gert mér grein fyrir að þetta væri eitthvað merkilegt,“ segir Ingibjörg Ýr Pálmadóttir í samtali við mbl.is. í ár eru 70 ár síðan Ingibjörg var fyrst kvenna til þess að vera kjörin forseti Framtíðarinnar, nemendafélags Menntaskólans í Reykjavík. Hún var heiðruð á fundi félagsins í gær.

Árið 1949 bauð kvennalisti fram til stjórnar Framtíðarinnar, en aðeins þriðjungur nemenda skólans voru kvenkyns á þessum tíma. Hlutu þrjár stelpur kjör til stjórnar auk Ingibjargar sem var kosin forseti. Tveir strákar úr hinu framboðinu hlutu einnig kjör.

„Strákarnir sem voru á hinum listanum þeim þótti þetta svo merkilegt að þeir vildu ekki vera með,“ segir Ingibjörg. Verkefnið hafi gerst erfiðara við að strákarnir sem sem hlutu kjör til stjórnar félagsins höfnuðu sætum sínum, en vonir voru um að strákarnir sem voru með reynslu af starfinu myndu starfa með nýrri stjórn.

Miklar deilur hafa verið milli nemenda MR á þessum tíma …
Miklar deilur hafa verið milli nemenda MR á þessum tíma ef marka má skrif úr Skólablaðinu frá árinu 1949. Skjáskot

Nutu einnig stuðning stráka

„Af því að við höfðum sigur í kosningunum þá sögðu strákarnir þið getið haft þetta og vildu koma hvergi nærri,“ segir Ingibjörg. Sökum þessa varð stjórn félagsins alfarið skipuð stúlkum.

„Það voru einnig strákar sem studdu okkur,“ segir Ingibjörg. Spurð hvort það hafi reynst erfitt að sannfæra þá um að styðja framboðið segir hún svo ekki vera. „Þeir gerðu það af fúsum og frjálsum vilja. Ég held að þeim hafi bara þótt þetta svolítið sniðugt.“

Hún segir kosninguna hafa endurspeglað tíðarandann. „Það var allstaðar í kringum mann í þjóðfélaginu kvenfólk að vakna til lífsins. Þær voru að koma í menntaskóla – það voru stelpubekkir þarna sem hafði ekki verið fyrir tíu árum. En þarna voru komnir stelpubekkir og þær voru að flykkja sér í menntaskólann.“

Þykir sjálfsagt

„Mér finnst það bara ágætt. Stelpur og strákar bjóða sig fram og þeir sem eru vinsælastir ná tökum á félögum,“ svarar Ingibjörg er blaðamaður spyr hvernig henni finnst staðan vera nú.

„Það var gaman að sjá allar þessu ungu stelpur sem hafa tekið þátt í félagsstarfinu síðan. Það þykir alveg sjálfsagt núna að það séu stelpur jafnt sem strákar sem eru í þessu starfi og strákarnir ekkert að hlaupast undan merkjum sama hverjir eru kosnir. Nú taka þeir bara þátt við hlið stelpnanna eins og við héldum að þeir myndu gera í gamla daga.“

Elín Halla Kjartansdóttir, forseti Framtíðarinnar.
Elín Halla Kjartansdóttir, forseti Framtíðarinnar. mbl.is/Hari

Mikilvæg fyrirmynd

Elín Halla Kjartansdóttir, forseti Framtíðarinnar, hélt erindi á fundi félagsins í gær og sagði „það að geta litið upp til einhvers auðveldar manni að hugsa út fyrir rammann, yfirstíga hindranir og þora að prófa eitthvað nýtt. Þannig var Ingibjörg mikilvæg fyrirmynd fyrir aðra kvenforseta Framtíðarinnar sem fetuðu sömu braut seinna.“

Þakkaði hún Ingibjörgu fyrir hönd þeirra kvenna sem gengt hafa forsetaembættinu í kjölfar kosningu hennar fyrir að ryðja brautina. „Takk fyrir þitt framlag til þess að nú þykir sjálfsagt að stelpur veljist til forystu í félagslífi skólans og í samfélaginu almennt til jafns við stráka.“

Elín Halla Kjartansdóttir, forseti Framtíðarinnar.
Elín Halla Kjartansdóttir, forseti Framtíðarinnar. mbl.is/Hari
Frá athöfninni í MR.
Frá athöfninni í MR. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert