Myndi semja við Klíníkina

Margir kjósa að fara erlendis í liðskiptaaðgerð og enn aðrir …
Margir kjósa að fara erlendis í liðskiptaaðgerð og enn aðrir borga aðgerðina sjálfir á Klíníkinni. mbl.is/Ásdís

Það er ys og þys á Landspítalanum í Fossvogi og starfsfólk á þönum um alla ganga. Leiðin liggur til fundar við yfirlækni bæklunarskurðdeildarinnar, Yngva Ólafsson, sem gaf blaðamanni stund af sínum tíma til þess að ræða biðlista í liðskiptaaðgerðir og hvernig mætti leysa þann vanda. Að loknu viðtalinu gekk blaðamaður út, feginn að vera ekki bæklunarskurðlæknir. Ekki vegna þess að starfið sjálft sé ekki spennandi, heldur fyrir þær sakir að þessir læknar þurfa að horfa framan í sárþjáða sjúklinga og segja þeim að biðin í aðgerð gæti orðið nokkuð löng.

Fráflæðisvandinn eykur á biðlista

Finnst þér biðlistaátakið hafa skilað árangri?

„Já, mér finnst það engin spurning. Vandamálið er fráflæðisvandinn og hann er enn til staðar,“ segir Yngvi og útskýrir að eldra fólk og langveikt sem leggst inn á spítalann, á ekki afturkvæmt heim til sín, og hefur þá engan stað að fara því öldrunarheimili og aðrar stofnanir séu fullar. Því festist sjúklingur á legudeild spítalans og tekur upp rúm sem annars væri nýtt undir sjúklinga sem þurfa að leggjast inn í styttri tíma, eins og eftir liðskiptaaðgerðir.

„Fyrir ákveðna hópa er ekki pláss neins staðar. Stærsta vandamálið í þessu öllu er hversu þétt setinn bekkurinn er af sjúklingum sem eiga ekki heima hér inni á deildunum. Þeir koma inn á sjúkrahúsið en komast ekki burt. Við erum að tala um helming til þrjá fjórðu af öllu legurými tiltekinna deilda. Það er ekki verið að tala um eitt eða tvö rúm. Stundum hristir maður bara höfuðið, hvernig yfirhöfuð er hægt að vinna með bráðainnlagnir á lyfjadeild. Það er þéttsetinn gangur af fólki og starfsfólkið leggur á sig ótrúlega vinnu. Fólk ætti að prófa að starfa við þessar aðstæður, þær eru ekki góðar,“ segir Yngvi.

Þannig að fráflæðisvandinn setur strik í reikninginn varðandi gerviliðaaðgerðir?

„Já, þar sem legurými og skurðstofurými vantar. Það var búin til bráðaskurðstofa en nýtingin á henni hefur verið innan við 50% vegna manneklu hjúkrunarfræðinga og svæfingarlækna.“

Yngvi Ólafsson, yfirlæknir á bæklunarskurðdeild LSH segir margar ástæður fyrir …
Yngvi Ólafsson, yfirlæknir á bæklunarskurðdeild LSH segir margar ástæður fyrir biðlistum í liðskiptaaðgerðir; m.a. fráflæðisvandinn. Hann telur að létta myndi á biðlistum ef samið yrði við Klíníkina í Ármúla, þótt ekki væri nema tímabundið. mbl.is/Ásdís

 Stærsti hluti hefði endað á biðlista

Nú mega sjúklingar fara til útlanda á grundvelli þriggja mánaða reglunnar. Ertu hlynntur því að fólk fari út í aðgerð?

„Mér finnst sorglegt að ekki hafi tekist að byggja upp þessa starfsemi hér heima. Því það er þrátt fyrir allt ódýrasti kosturinn að þetta sé gert hér innan spítalans. En ég skil vel fólk sem fer út, það á rétt á því og það þarf að gera það upp við sjálft sig. Sama gildir um Klíníkina. Sá hluti sem hefur farið út og farið á Klíníkina hefði annars verið á biðlista hér.“

Það hjálpar þá til við að stytta biðlistana ykkar?

„Engin spurning. Stærsti hluti þeirra hefði endað á biðlista hjá okkur, níu mánaða biðlista eða hvað það er. Og þá væri biðin enn lengri,“ segir hann.

Hvað finnst þér um þá staðreynd að Sjúkratryggingar Íslands vilji ekki semja við Klíníkina vegna liðskiptaaðgerða, þó það væri ekki nema tímabundinn samningur?

„Mér finnst það eiginlega skrítið. Eins og ég segi, við værum í meiri vandræðum ef fólk hefði ekki þann kost,“ segir Yngvi.

Hvað myndir þú gera ef þú værir heilbrigðisráðherra?

„Ég myndi fyrst og síðast byggja upp þessa stofnun sem ég er að vinna hjá. En á meðan finnst mér sá möguleiki að semja við Klíníkina ætti að vera uppi á borði. Sem tímabundna lausn. Það eru þúsund manns á biðlista með sínar þjáningar. Mér finnst sjálfsagt að reyna að koma þeim til hjálpar á einhvern hátt.“

Viðtalið í heild er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert