Gagnrýnir framúrkeyrslu á Sauðárkróki

Frá Sauðárkróki.
Frá Sauðárkróki. mbl.is/Sigurður Bogi

Í drögum að viðauka við fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Skagafjarðar er gert ráð fyrir því að fjárfesting eignasjóðs hækki um 97,5 milljónir króna vegna framkvæmda við Aðalgötu 21 á Sauðárkróki þar sem sýndarveruleikasýning á að vera til húsa. Viðfangsefnið verður Sturlungaöld. 

Ólafur Bjarni Haraldsson, fulltrúi Byggðalista í sveitarstjórn, segir í pistli sínum ekki vera um 15% framúrkeyrslu að ræða eins og haldið hefur verið fram.

Þar segir hann að kostnaðaráætlun vegna framkvæmda við húsnæðið hljóði upp á rúmar 189 milljónir króna.

Hann bendir á að samþykktur hafi verið viðauki við fjárhagsáætlun 2018 upp á 120 milljónir króna til að ljúka viðhaldi innan- og utanhúss og að þær hafi bæst við þær 80 milljónir króna sem upphaflega voru á fjárhagsáætlun. Því sé fjármagnið orðið 200 milljónir króna með rúmum 10 milljónum fyrir auka- og/eða viðbótarverk.

Nú liggi fyrir sveitarstjórn viðauki upp á 97,5 milljónir króna til að ljúka framkvæmdunum og því hafi alls 297,5 milljónir króna verið áætlaðar í verkið.

„Sveitarstjórn sveitarfélagsins Skagafjarðar áætlaði 200 milljónir til þess að ljúka innan- og utanhúss viðhaldi á fasteignunum við Aðalgötu 21, sem nú eru orðnar tæpar 300 milljónir. Það eru ekki 15%, alveg sama hvort um sé að ræða eitt stórt klúður, eða mörg ný og smærri,“ skrifar hann í pistli sínum.

Taldi sveitarfélagið hagnast um 195 milljónir

Ráðgjafa­fyr­ir­tækið Deloiette var fengið til að gera fjár­hags­lega út­tekt á áhrif­um upp­setn­ing­ar á sýndarveruleiaksýn­ing­unni. Það tel­ur að sveit­ar­fé­lagið muni hagn­ast um 195 millj­ón­ir króna af verk­efn­inu á samn­ings­tím­an­um, sem er 30 ár. Gert er ráð fyr­ir að 10 manns muni starfa hjá fyr­ir­tæk­inu til að byrja með og þeim verði fjölgað þegar fram líða stund­ir. Sveit­ar­fé­lagið fær með fram­lagi sínu 10% eign­ar­hlut í Sýnd­ar­veru­leika ehf., að því er seg­ir í bók­un­ frá því í desember í fyrra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert