Kraumuðu enn eldglæður í Æsi

Slökkviliðsmaður að störfum. Mynd úr safni.
Slökkviliðsmaður að störfum. Mynd úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Slökkviliðsmenn á Patrekfirði og Tálknafirði hafa lokið við að slökkva eld í fiskibátnum Æsi, sem eldur kom upp í í kvöld er báturinn var stadd­ur vest­ur af Flat­ey á Breiðafirði. Þrír voru um borð í bátnum þegar eldurinn kom upp.

Að sögn Davíðs Rúnars Gunnarssonar slökkviliðsstjóra kraumaði enn eldur í glæðum þegar Hafey kom með bátinn að bryggju á Brjánslæk. Eld­ur­inn var ekki sjáan­leg­ur er báturinn var í togi, en hann var hins vegar greini­leg­ur með hita­mynda­vél­um og því var ákveðið að kalla til slökkvilið staðarins.

Davíð Rúnar segir eldinn að mestu hafa verið slokknaðan og vel hafi gengið að slökkva rest. Einhverjar skemmdir urðu á bátnum vegna brunans, en ekki verður þó hægt að skoða umfang þeirra fyrr en á morgun.

Óvenjulegt annríki var hjá slökkviliðinu á staðnum þetta kvöld því annað útkall barst á sama tíma og verið var að slökkva í Æsi, en eldur hafði þá kviknað í ruslakari við grunnskólann á Bíldudal. Nokkur hætta stafaði af eldinum, þar sem ruslakarið stóð upp við vegg skólahússins. Slökkviliðsmenn á Bíldudal voru hins vegar snöggir á staðinn og náðu að draga karið burt og slökkva í því áður en tjón hlaust af.

mbl.is