Álagning OR á vatnsgjaldi árið 2016 ólögmæt

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur í nýlegum úrskurði komist að þeirri …
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur í nýlegum úrskurði komist að þeirri niðurstöðu að álagning Orkuveitu Reykjavíkur á vatnsgjaldi ársins 2016 hafi verið ólögmæt. mbl.is/Árni Sæberg

Álagning Orkuveitu Reykjavíkur á vatnsgjaldi ársins 2016 var ólögmæt. Þetta kemur fram í nýlegum úrskurði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins vegna stjórnsýslukæru vegna álagningar OR á vatnsgjaldi ársins 2016. Í kjölfar úrskurðarins hefur ráðuneytið ákveðið að taka til skoðunar gjaldskrár allra sveitarfélaga, sem settar hafa verið á grundvelli laga um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 32/2004.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir, að með hliðsjón af 10. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga, sé með öllu óheimilt í gjaldskrá að ákveða hærra gjald en nemur meðalkostnaði af því að veita þjónustuna. Vatnsgjald skuli, ásamt öðrum tekjum vatnsveitu, aðeins ætlað að standa undir rekstri vatnsveitunnar.

Undir það falli einnig fjármagnskostnaður, fyrirhugaður stofnkostnaður samkvæmt langtímaáætlun veitunnar og kostnaður við að tryggja nægilegt vatn til slökkvistarfs og fyrir sérstakan slökkvibúnað í samræmi við skyldur veitunnar. Í lögum eða reglugerð væri á hinn bóginn hvergi að finna ákvæði, sem heimilar að tekinn sé arður af starfsemi vatnsveitu.

Í úrskurðinum kemur einnig fram, að miðað við fyrirliggjandi gögn og umsögn Orkuveitunnar, telji ráðuneytið ljóst að arðsemi fyrirtækisins umfram fjármagnskostnað sé að lágmarki um 2%. Ákvæði gjaldskrár Orkuveitunnar vegna álagningar ársins 2016 væru að þessu leyti í andstöðu við ákvæði 1. mgr. 10. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga. Loks gefi fyrirliggjandi gögn til kynna að Orkuveitan hafi á undanförnum árum haft umtalsverðan arð af starfsemi sinni og muni svo verða áfram, sbr. fjárhagsáætlun fyrir árin 2017 til 2021.

Hér má lesa úrskurðinn í heild sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert