„Hver einasti maður í Mehamn er í sjokki“

Kirkjan í Mehamn þar sem Maria Dale sóknarprestur hélt minningarstund …
Kirkjan í Mehamn þar sem Maria Dale sóknarprestur hélt minningarstund um hinn látna í dag. Samfélag Íslendinga í Mehamn er með böggum hildar eftir voðaatburðinn í nótt. Ljósmynd/Wikipedia.org

„Við vorum mjög góðir félagar, þessi drengur var alveg yndislegur og ég get sagt þér að stórt skarð er höggvið í samfélag Íslendinga jafnt sem Norðmanna.“

Þetta segir Sigurður Hjaltested, sjómaður í Mehamn í Finnmörku, nyrst í Noregi, í samtali við mbl.is um þann hörmulega atburð sem þar varð í nótt þegar íslenskur maður skaut hálfbróður sinn til bana í þessu litla samfélagi sem er eitt af nyrstu byggðarlögum heims.

„Hann var einn af mínum betri félögum, hvers manns hugljúfi, alveg yndislegur og alltaf tilbúinn að hjálpa öllum,“ segir Sigurður og greinir frá því hvernig íslenskir sjómenn hafi haldið til róðra í samfloti í þessu litla samfélagi: „Við vorum að róa saman og svo hringdumst við allir á milli, hvar er fiskurinn og svo framvegis,“ segir Sigurður sem var nýkominn úr minningarathöfn um fallinn félaga í Mehamn-kirkju hjá séra Mariu Dale sóknarpresti þegar mbl.is ræddi við hann

„Athöfnin var mjög falleg og þangað komu allir, Íslendingar og Norðmenn. Hann var aufúsugestur á hverju heimili hér,“ segir Sigurður en færist undan því að ræða samband bræðranna eða hver kveikjan var að harmleiknum enda mun það að öllum líkindum verða tíundað við réttarhöldin.

„Hver einasti maður í Mehamn er í sjokki,“ sagði Sigurður Hjaltested og klykkti út með því að söknuður kærustu og fósturbarna hins látna væri sár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert