Krefst óbreyttrar fangelsisrefsingar

Frá vinstri, Torstein Lindquister og Bjørn Gulstad, er þeir báru …
Frá vinstri, Torstein Lindquister og Bjørn Gulstad, er þeir báru saman bækur sínar fyrir héraðsdómi. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Torstein Lindquister, héraðssaksóknari í Troms og Finnmark, hefur krafist óbreyttrar fangelsisrefsingar í áfrýj­un­ar­máli Gunn­ars Jó­hanns Gunn­ars­son­ar, sem í októ­ber hlaut 13 ára fang­els­is­dóm fyr­ir að ráða hálf­bróður sín­um, Gísla Þór Þór­ar­ins­syni, bana með hagla­skoti að morgni 27. apríl 2019.

Frá þessu greinir héraðsblaðið iFinnmark í dag.

Réttarhöldin hófust 22. febrúar og sagði dómstjórinn Vidar Stensland í gær að stefnt væri að dómsuppkvaðningu í þessari viku eða byrjun þeirrar næstu.

Bjørn Andre Gulstad og Gunnar Jóhann Gunnarsson.
Bjørn Andre Gulstad og Gunnar Jóhann Gunnarsson. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Í mesta lagi manndráp af gáleysi

Í kröfu héraðssaksóknara felst að Gunnar muni áfram sæta 13 ára fangelsisrefsingu, að frádregnum 674 dögum sem hann hefur varið í varðhaldi.

Verjandi Gunnars, Bjørn Andre Gulstad, sagðist við réttarhöldin þeirrar trúar að í mesta lagi mætti sakfella skjólstæðing sinn fyrir manndráp af gáleysi.

Rétturinn yrði að komast að niðurstöðu um hvort banaskotið hafi verið viljaverk.

„Ef þetta snýst um ásetning þá verður maður að sanna að sakborningurinn, á augnabliki gjörningsins, hafi í raun og veru verið sá sem hleypti af byssunni. Ég tel að það geti maður ekki hér,“ sagði Gulstad.

Hann gerir kröfu um sýknu en til vara að fangelsisvist Gunnars verði skert, með hliðsjón af óbreyttum og stöðugum framburði skjólstæðingsins frá fyrsta degi.

mbl.is