Þriðji orkupakkinn eðlilegt framhald

mbl.is/Jón Pétur

Landsvirkjun styður samþykkt þingsályktunartillögu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra um að stjórnskipulegum fyrirvara verði aflétt af þriðja orkupakka Evrópusambandsins og hann samþykktur vegna aðildar Íslands að EES-samningum. Þetta kemur fram í umsögn sem fyrirtækið hefur sent til utanríkismálanefndar Alþingis vegna málsins.

„Landsvirkjun telur að þær breytingar sem gerðar voru með þriðja orkupakkanum sem ESB-ríkin samþykktu árið 2009 hafi verið eðlilegt framhald í ljósi reynslu af þágildandi reglum, auknum kröfum um neytendavernd og samkeppni og síðast en ekki síst aðgerðum til að bregðast við loftslagsbreytingum. Áfram er lögð áhersla á að neytendur hafi raunverulegt val á af hverjum þeir kaupa raforku í því skyni að ná aukinni skilvirkni, samkeppnishæfu verði og stuðla að afhendingaröryggi og sjálfbærni,“ segir ennfremur í umsögninni og áfram:

„Landsvirkjun telur að breytingar sem verið er að gera muni hafa jákvæð áhrif ef eitthvað er á íslenskan raforkumarkað  og að margt í þeim styrki stöðu notenda. Ekki þarf að gera miklar breytingar á orkulöggjöf Íslands vegna innleiðingarinnar og að kostnaður við hana sé óverulegur. Þátttaka Orkustofnunar í samstarfi eftirlitsaðila mun ef vel er að því staðið færa verðmæta þekkingu til landsins og skila ávinningi bæði fyrir notendur og orkufyrirtækin.“

mbl.is

Bloggað um fréttina