Ætla á sundbolnum frá Alcatraz

Magnea Hilmarsdóttir (t.v.) og Heiðrún Hauksdóttir (t.h.) ásamt Steve Walker, …
Magnea Hilmarsdóttir (t.v.) og Heiðrún Hauksdóttir (t.h.) ásamt Steve Walker, bandarískum sundmanni sem hefur komið hingað til lands til þess að synda langsund í köldum sjó. Ljósmynd/Aðsend

Sjósundskonurnar Heiðrún Hauksdóttir og Magnea Hilmarsdóttir ætla á morgun að verða fyrstu íslensku konurnar til þess að þreyta Alcatraz-sund á hefðbundnum sundfötum, en þær hyggjast synda um tveggja kílómetra leið í land frá fangelsiseyjunni Alcatraz utan við San Fransiskó í Kaliforníu í Bandaríkjunum.

Heiðrún segir í samtali við mbl.is að þær stöllur, sem báðar eru í stjórn SJÓR (Sjósunds- og sjóbaðsfélags Reykjavíkur), séu spenntar og vel stemmdar fyrir sundinu, en í dag fóru þær og skoðuðu sundklúbba í borginni og syntu tvo kílómetra í þrettán gráða heitum sjónum undan ströndinni. Alcatraz-sundið hefur verið á stefnuskránni um nokkurt skeið.

„Það vill svo vel til að ég starfa hjá Icelandair sem flugfreyja, þannig að ég fékk þessa ferð bara svona óvænt. Ég var búin að biðja um að fá að fara hingað nokkrum sinnum síðasta árið, en svo fékk ég þessa ferð og þá ákváðum við bara að láta á þetta reyna, hvort að við kæmumst í þetta,“ segir Heiðrún.

Heiðrún Hauksdóttir, hér í rauðum sundbol, ætlar að synda Alcatraz-sund …
Heiðrún Hauksdóttir, hér í rauðum sundbol, ætlar að synda Alcatraz-sund á morgun ásamt Magneu Hilmarsdóttur. Ljósmynd/Aðsend

Ekki er um skipulagt sund að ræða, heldur fara þær á eigin vegum og hafa leigt sér fylgd. „Við leggjum af stað kl. 6:45 í fyrramálið og það verður siglt með okkur yfir til Alcatraz þar sem við hoppum út í og stefnum svo í land í San Fransiskó. Straumarnir geta borið mann býsna mikið af leið skilst mér,“ segir Heiðrún og bætir við að straumhraðinn geti verið allt að sjö kílómetrar á klukkustund og að þær Magnea séu fjarri því að hafa þann sundhraða.

„Og það eru nú reyndar mjög fáir í heiminum sem hafa þann sundhraða,“ segir Heiðrún og hlær. Það þarf að tímasetja þetta sund vel, vegna straumanna, og segir Heiðrún að þær hafi um það bil eins og hálfs klukkutíma glugga til þess að klára sundið.

„Við syntum tvo kílómetra í morgun á klukkutíma, en þá vorum við ekki að berjast við neina strauma,“ segir Heiðrún, sem segist hafa heyrt að dæmi séu um að fólk sem lendi í vandræðum vegna strauma hafi verið allt að fimm klukkustundir að rembast við að koma sér í land.

Magnea Hilmarsdóttir í Bessastaðasundi síðasta haust.
Magnea Hilmarsdóttir í Bessastaðasundi síðasta haust. Ljósmynd/Aðsend

Sjósundið veitir Heiðrúnu mikla gleði. „Maður er alltaf í gleðivímu eftir að synda svona. Sjórinn heima er núna kominn upp í átta gráður og við höfum verið að fara upp í að synda kílómetra kannski, í mesta lagi, með hanska þá.“

Heiðrún segir æðislegt að byrja sund-sumarið í heitari sjó erlendis, en áhuginn á sjósundi fer að hennar sögn vaxandi á Íslandi og eru virkir félagar í SJÓR um það bil 200 talsins, auk þess sem 2.500 manns fylgjast með umræðuhópi um sjósund á Facebook.

Afgreiðslutími baðaðstöðunnar í Nauthólsvík var lengdur í vetur og nú er opið þar bæði í hádeginu og síðdegis alla virka daga og á laugardögum frá 11-16, sem var fagnaðarefni fyrir sjósundsfólk á höfuðborgarsvæðinu.

Fangelsiseyjan Alcatraz, séð frá SERC-sjósundsklúbbnum í San Fransiskó í dag.
Fangelsiseyjan Alcatraz, séð frá SERC-sjósundsklúbbnum í San Fransiskó í dag. Ljósmynd/Aðsend
Sjósundið er vaxandi sport á Íslandi. Hér er núverandi og …
Sjósundið er vaxandi sport á Íslandi. Hér er núverandi og fyrrverandi stjórnarfólk SJÓR við höfnina á Akranesi. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert