Mikið reyk- og vatnstjón í Seljaskóla

Slökkvistarfi er lokið í Seljaskóla.
Slökkvistarfi er lokið í Seljaskóla. mbl.is/Ómar Óskarsson

Slökkvistarfi er formlega lokið í Seljaskóla en slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur unnið að því að slökkva eld sem kviknaði í þaki skólabyggingar á skólalóðinni laust eftir miðnætti í gær. Slökkvistarf tók um hálfan sólarhring.

„Þetta er á lokametrunum. Við erum að pakka saman en það verða tveir menn hér áfram til að fylgjast með ef eitthvað gerist,“ segir Rúnar Helgason, varðstjóri, í samtali við mbl.is.

Allt tiltækt slökkvilið sinnti slökkvistarfi við Seljaskóla frá miðnætti til …
Allt tiltækt slökkvilið sinnti slökkvistarfi við Seljaskóla frá miðnætti til hádegis. mbl.is/Ómar Óskarsson

Búið er að reykræsta bygginguna og nú vinna verktakar frá tryggingarfélögum að hreinsunarstarfi sem mun líklega standa fram eftir degi. Lögreglu verður afhentur vettvangur fljótlega eftir hádegi að sögn Rúnars.

Ljóst er að mikið tjón er í byggingunni, bæði vegna brunans sjálfs en einnig er um að ræða vatns- og reyktjón. „Það er mikið tjón, en það á eftir að meta það betur.“

Rúnar segir að bruninn í nótt hafi verið með því stærra sem slökkviliðið fæst við alla jafna. „Þetta var býsna stórt verkefni, það eru bara þessir svaka stóru sem toppa þetta, en þetta var það mikið að allt tiltekið lið á frívakt var kallað út.“

Hefur áhrif á 200 nemendur

Bruninn hefur áhrif á skólastarf Seljaskóla á morgun og næstu daga en Magnús Þór Jóns­son, skóla­stjóri Selja­skóla, sagði í sam­tali við blaðamann mbl.is fyr­ir utan skól­ann í nótt að von sé á ein­hverri rösk­un á skóla­starfi vegna elds­ins en að kennt verði á morgun.

Fram kom í hádegisfréttum RÚV að um þriðjungur nemenda við skólann, um 200 talsins, mætir í hluta kennslustunda annars staðar en í sínum bekkjarstofum þar sem eftir er skólaársins. Er það að hluta til vegna brunans í nótt, þar sem sex kennslustofur eru í 400 fermetra rými, en einnig vegna eldvoðans sem kom upp í annarri byggingu skólans í mars.

Mesta tjónið er í þaki byggingarinnar.
Mesta tjónið er í þaki byggingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þá er ljóst að töluvert tjón varð á munum skólans sem voru inni í byggingunni. Þar á meðal eru 60 spjaldtölvur sem nemendur voru nýlegar búnir að fá en Bára Birgisdóttir, aðstoðarskólastjóri Seljaskóla, sagði í fréttum RÚV að það skýrist seinna í dag hvort spjaldtölvurnar hafi orðið fyrir skemmdum.

Bruninn í nótt hafi verið með því stærra sem slökkviliðið …
Bruninn í nótt hafi verið með því stærra sem slökkviliðið fæst við alla jafna. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert