Ekki verið að keyra málið í gegn

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis. mbl.is/Hari

„Það er alrangt að málið hafi með einhverjum hætti verið keyrt í gegn um utanríkismálanefnd,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, um þingsályktun um þriðja orkupakka Evrópusambandsins sem samþykkt var úr nefndinni í morgun.

Fulltrúi Miðflokksins greiddi atkvæði gegn því að málið yrði afgreitt úr utanríkismálanefnd en aðrir flokkar greiddu atkvæði með því. Fram kom í fréttatilkynningu frá Miðflokknum að ljóst væri að þröngva ætti málinu í gegnum Alþingi á sem skemmstum tíma þrátt fyrir að málið ylli mörgum áhyggjum og mikil andstaða væri við það hjá þjóðinni.

Áslaug vísar þessu á bug. Málið hafi tekið mikinn tíma hjá utanríkismálanefnd síðustu vikur og verið orðið við öllum óskum um gesti. „Við höfum fengið ótrúlega mörg og fjölbreytt sjónarmið fyrir nefndina. Bæði fræðileg, frá samtökum og öðrum. Ég hef lagt mig fram við að halda öllum nefndarmönnum upplýstum,“ segir hún ennfremur.

Þannig hafi nefndarmenn ítrekað verið upplýstir um að til stæði að taka málið úr nefndinni í kringum helgina sem hefði fyrir vikið ekki átt að koma neinum á óvart. Farið hefði síðan verið yfir nefndarálit meirihlutans á föstudaginn og tekið skýrt fram að vinnu við málið yrði lokið um helgina og að afgreiðsla þess yrði í dag.

„Þannig að það er alrangt að nefndin hafi ekki legið yfir málinu og nýtt allan þennan tíma. Það er ódýrt að halda einhverju öðru fram í dag eftir að hafa tekið þátt og beðið um gestakomur vegna málsins,“ segir Áslaug.

Áslaug birti í dag færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hún fer yfir málið varðandi þriðja orkupakkann, afgreiðslu málsins og sjónarmiðum sínum til þess.

mbl.is

Bloggað um fréttina