Spáir blautu og hlýju sumri

Hlýtt en blautt er spáin fyrir sumarið á hálendinu sem …
Hlýtt en blautt er spáin fyrir sumarið á hálendinu sem og fyrir norðan og austan. mbl.is/RAX

Veðurlag sumarsins einkennist af þokkalegum hlýindum einkum á hálendinu og fyrir norðan og austan. Spáð er meiri úrkomu en að jafnaði á eiginlega sömu landsvæðum og gert er ráð fyrir hlýindum. Þetta kemur fram í færslu á veðurvefnum Blika.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur, sem heldur úti blika.is, birti í gær þriggja mánaða veðurspá sem byggir á spá Evrópsku reiknimiðstöðvarinnar.

Samkvæmt Blika eru 60-70% líkur á að hiti endi í efsta þriðjungi miðað við síðustu 20 ár. Lofthringrásinni og stöðu veðurkerfa er spáð að verða nokkuð breytilegri, þar sem skiptast á ólíkir veðurkaflar yfir sumarmánuðina. Ekki er að sjá nein merki þess að einhver ákveðin vindátt verði frekar ríkjandi umfram aðra.

50-60% líkur á markvert meiri rigningu á hálendinu sem og austanlands. Er sennilega líka til marks um  breytilegt veðurlag í sumar þar sem engin sérstök vindátt verði ríkjandi. 

Síðustu vikur hafa orðið markverðar breytingar í Kyrrahafi og El-Ninio-ástand hefur ekki náð að festa sig í sessi eins og áður var talið mjög líklegt. Hefur áhrif á veðurlag víða um heim og þar með einn af áhrifaþáttum veðurlagsspárinnar fyrir komandi sumar.  

Sjór verður allt að 1 til 2 stigum hlýrri en að jafnaði norður og austur af landinu. Belti af kaldari yfirborðssjó en að jafnaði er spáð frá Nýfundnalandi og hér djúpt suðvestur undan.  Þetta er „Blái borðinn“ og almennt er að sjá heldur kaldari sjó þvert yfir Atlantshafið í átt til Írlands. Kælir að sumri og veldur frekar skýjum en annars sem og úrkomu í þeim tilvikum þegar loft kemur úr þeirri átt, skrifar Einar á Blika en hér er hægt að lesa nánar. 

mbl.is