Þrír ákærðir fyrir nauðgun

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í upphafi næstu viku.
Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í upphafi næstu viku. mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Þrír karlmenn hafa verið ákærðir af embætti héraðssaksóknara fyrir að nauðga stúlku í febrúar 2017 í þremur herbergjum húsnæðis í Reykjavík. RÚV greindi fyrst frá.

Í ákæru kemur fram að mennirnir hafi beitt stúlkuna ólögmætri nauðung með því að notfæra sér ölvunarástand hennar og yfirburðastöðu sína, þar sem stúlkan var stödd með þremur ókunnugum mönnum fjarri öðrum. Þeir brutu gegn henni hver í sínu lagi.

Tveir mannanna eru sagðir hafa haft samfarir við stúlkuna og nýtt sér til þess yfirburðastöðu sína gagnvart henni sökum aldurs- og þroskamunar, en einn þeirra mun hafa látið hana hafa við sig munnmök.

Stúlkan, sem var ekki orðin 18 ára þegar brotin áttu sér stað, fer fram á mennirnir greiði henni 5 milljónir króna í miskabætur.

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í upphafi næstu viku og verður þinghaldið lokað.

mbl.is