„Hamfarahlýnun af mannavöldum“

Auður segir vísindamenn kunna að leggja réttan skilning í hugtakið …
Auður segir vísindamenn kunna að leggja réttan skilning í hugtakið loftslagsbreytingar, en þörf sé á að ræða loftslagsvána á mannamáli. mbl.is/Ómar Óskarsson

Orðanotkunin í umræðunni um loftslagsvána er ein þeirra mistaka sem gerð hafa verið í umræðu um umhverfismálin að mati Auðar Önnu Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Landverndar. Sjálf er hún hlynnt því að tala um hamfarahlýnun af mannavöldum.

Breska dag­blaðið Guar­di­an greindi frá því fyrir helgi að blaðið hafi gert breyt­ing­ar á þeim hug­tök­um sem notuð séu í umræðunni um þá vá sem vist­kerfi jarðar standi nú frammi fyr­ir. Þannig mun Guar­di­an ekki leng­ur tala um lofts­lags­breyt­ing­ar, held­ur lofts­lagsneyðarástand, hættu­ástand eða niður­brot. Eins fjallar miðillinn eftirleiðis um hit­nun jarðar í stað hlýn­un­ar jarðar og sagði ritstjórinn, Kat­har­ine Viner, stofnanir á borð við Sameinuðu þjóðirnar og vísindamenn vera farna að nota sterk­ara orðafar til að lýsa þeim aðstæðum sem mann­kyn sé nú í.

„Ég held að þetta sé ein af mörgum mistökum sem við höfum gert síðastliðin 30 ár þegar við höfum verið að ræða um umhverfismálin, sérstaklega loftslagsbreytingar,“ segir Auður í samtali við mbl.is. Ekki hafi tekist að koma því í gegn til almennings hversu rosalega alvarlegt málið sé.

„Hluti af því er orðnotkunin. Það er mjög mikilvægt að nota rétt og lýsandi orð af því að það geta ekki allir verið sérfræðingar í loftslagsbreytingum.“

Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, segir ekki hafa tekist að …
Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, segir ekki hafa tekist að koma því í gegn til almennings hversu alvarleg loftslagsváin er.

Er bæði hlýnun og hamfarir

Landvernd hefur notað hugtakið loftslagsvá um loftslagsbreytingar og segir Auður það orð vera nokkuð notað hér á landi til að lýsa ástandinu. „Síðan hvöttum við ríkisstjórnina á aðalfundi Landverndar þann 30. apríl  til að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum sem væri þá viðurkenning á því hvað þetta er svakalega alvarlegt mál.“

Sjálfri hugnast henni vel að tala um hamfarahlýnun af mannavöldum. „Ég heyrði fyrst Steinunni Sigurðardóttur stinga upp á því að við töluðum um hamfarahlýnun af mannavöldum og persónulega finnst mér það vera mjög gott. Þá erum við líka bæði að hafna því að þetta sé ekki af mannavöldum og sýna að þetta er hlýnun og þetta eru hamfarir. Þá erum við að koma með skilaboðin um það hvað þetta er í raun og veru.“

Vísindamenn kunni að leggja réttan skilning í hugtakið loftslagsbreytingar, en þörf sé á að ræða loftslagsvána á mannamáli. „Vísindamenn hafa verið gagnrýndir fyrir að stíga ekki harkalega fram og hafa ekki náð að miðla því hvað þetta er mikil neyð og hversu aðkallandi þetta er. Meira að segja fólk sem hefur fylgst vel með í umhverfismálum hefur talað um að það hafi ekki skinið í gegn hversu áríðandi þetta er,“ segir Auður og nefnir máli sínu til stuðnings þá flóðbylgju athygli sem málaflokkurinn hafi fengið með sænsku skólastúlkunni Gretu Thunberg. „Það eina sem hún gerði er að segja hlutina eins og þeir eru,“ bætir hún við.

Greta Thunberg flytur hér tölu á fundi mótmælenda í London …
Greta Thunberg flytur hér tölu á fundi mótmælenda í London í síðasta mánuði. AFP

Hlýnun kósí orð

Spurð hvort hún telji líklegt að Landvernd fari að tala um hitnun jarðar í stað hlýnunar, segir hún það vera nokkuð sem samtökin þurfi að fara betur yfir. „Það er þó náttúrulega miklu réttara að tala um hitnun, því hlýnun er svolítið kósí orð,“ segir Auður.

Hugtakanotkunina útskýrir hún að megi hins vegar rekja til áttunda áratugarins þegar hugtakasmíðin var í vinnslu. „Þetta var hrikalegt stríð við afneitunarsinna sem voru, og eru enn fjármagnaðir af ofboðslega sterkum hagsmunaaðilum,“ segir Auður. „Þannig að það þurfti að ná einhverjum málamyndunum sem varð síðan hættulegt á endanum.“

mbl.is