Útilokar ekki yfirlýsingu um neyðarástand

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, segist fagna öllum þrýstingi …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, segist fagna öllum þrýstingi á stjórnvöld í loftslagsmálum. mbl.is/Eggert

„Þetta er náttúrulega stærsta áskorun 21. aldarinnar að mínu mati,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. Breska þingið lýsti á miðvikudag yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og Landvernd skoraði sl. þriðjudag á íslensk stjórnvöld að gera hið sama.

„Ég fagna þessari umræðu sem hefur orðið bæði í Bretlandi og hérna heima á þessum forsendum vegna þess að hún er að ýta loftslagsmálunum á þann stað sem þau eiga heima,“ segir Guðmundur Ingi í samtali við mbl.is.

Er ráðherra er spurður hvort hann telji íslensk stjórnvöld eiga að lýsa yfir neyðarástandi segir hann fyrstu spurninguna verða að vera hvort neyð ríki. „Ég myndi svara því þannig til að við höfum séð og erum að horfa upp á neyðaratburði sem rekja má til loftslagsbreytinga, hvort sem það eru þurrkar, flóð, hækkun yfirborðs sjávar eða útrýming tegunda. Það er því hægt að svara þessu játandi,“ segir Guðmundur Ingi. „Því næst spyr maður sig hvað maður geri þegar um neyðarástand er að ræða og það að grípa til aðgerða er aðalmálið í mínum huga.“

Vonast til að koma með frekari aðgerðir í haust

Guðmundur Ingi nefnir sem dæmi að Bretar séu nú að ræða um að ná kolefnishlutleysi árið 2050 í tengslum við þessa umræðu. Íslendingar hafi hins vegar sett sér það markmið að ná þeim áfanga 2040. „Við erum með aðgerðaáætlun í gangi  sem við settum af stað í fyrrahaust og við erum að vinna eftir. Við erum auk þess að endurskoða hana og vonumst til þess að koma með frekari aðgerðir í haust.“ Almennt talið segist hann fagna umræðunni og kveðst ekki vilja útiloka neitt. „Mér finnst sjálfsagt mál að skoða þetta eins og allar hugmyndir sem geta orðið til þess að lyfta loftslagsmálunum.“

Sjálfur kveðst hann fagna öllum þrýstingi á stjórnvöld, en segir loftslagsmálin þó snúast um svo miklu meira en stjórnvöld. „Þetta snýst um að allt þjóðfélagið og samfélagið sé á þeim stað að samsvara sig því að þarna er alveg risavaxið viðfangsefni.“ Eigi að takast að koma í veg fyrir að þeir neyðaratburðir sem rekja megi til loftslagsbreytinga verði algengari í framtíðinni þá verði jarðarbúar að takast á við það verkefni.

Unnið að því að greina hvaða samdrætti hver aðgerð skilar

Í áskorun sinni til stjórnvalda segir Landvernd aðgerðaáætlun til loftslagsmála sem stjórnvöld kynntu sl. haust ekki duga til. Hún sé ótímasett, ómagnbundin og taki ekki á öllum geirum sem nota mikið af gróðurhúsalofttegundum.

„Það er alveg rétt að áætlunin sem var sett fram í fyrrahaust er ekki magnbundin, en við vissum líka alveg af því og að það þyrfti að vinna það atriði nánar, það kom skýrt fram þegar áætlunin var kynnt,“ segir Guðmundur Ingi. „Við ákváðum samt að setja áætlunina fram eins og hún stóð á þeim tímapunkti, svo við gætum byrjað að koma verkefnum af stað.“ Áætlunin sé búin að vera í vinnslu síðan þá. „Við erum einmitt að vinna í því að gera okkur betur grein fyrir því hvað hver og ein aðgerð, eða hópar af aðgerðum geta skilað okkur í samdrætti í losun.“

Guðmundur Ingi segir segir að uppfærð áætlun verði lögð fram síðar á árinu og að í þeirri áætlun sé gert ráð fyrir að meira verði um magnbundin og tímasett verkefni.

„Við erum að koma aðgerðum í framkvæmd og munum geta haft nánari greiningar á því síðar á árinu,“ útskýrir hann.

Spurður hvort uppfærð áætlun muni taka á fleiri geirum, sem nota mikið af gróðurhúsalofttegundum, en núverandi áætlun, segir hann áætlunina þegar ná yfir flestalla geira samfélagsins.“ Þar sé tekið á sjávarútvegi, landbúnaði, úrgangi og samgöngum. Í áætluninni sé einnig talað um aðgerðir sem snúa að bæði flugi og stóriðju, þótt þessir þættir heyri undir sérstök alþjóðleg kerfi. „Þeir eru alveg inni í áætluninni og það er tekið á þeim í gegnum þessi kerfi,“ segir Guðmundur Ingi. „Ég held að við séum að ná yfir langflesta þættina.

Sameiginlegt verkefni okkar allra

Guðmundur Ingi bendir á að aðgerðaáætlunin hafi verið í umsagnarferli allt síðasta haust og við endurbæturnar sé horft til þeirra athugasemda sem þar hafi komið fram. „Það er náttúrulega líka alltaf hægt að senda okkur fleiri,“ bætir hann við.

Spurður hvort sér finnist umræða um loftslagsmál hafa aukist frá því stjórnvöld lögðu fram áætlun sína segir Guðmundur Ingi svo vera. „Við lögðum okkar áætlun fram í september og það er ekki oft sem sjö ráðherrar koma saman á blaðamannafundi og leggja fram áætlun, þannig að það er víðtækur pólitískur stuðningur við hana,“ segir hann.

„Mánuði síðar kom svo út vísindaskýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál  skýrsla sem margir hafa sagt vera síðustu viðvörun til mannkyns. Það gerðist eitthvað þegar sú skýrsla kom út, ekki bara hér heima heldur alls staðar, og ég finn rosalegan mun núna. Umræðan í samfélaginu, niðri á þingi og á öllum vígstöðvum hefur dýpkað. Það er meiri áhugi, skilningur og alvarleiki í umræðunni og það er eitthvað sem ég held að skipti gríðarlega miklu máli til að hvetja ekki bara stjórnvöld áfram, heldur líka fyrirtæki og almenning. Þetta er sameiginlegt verkefni okkar allra.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert