Þóra í ársleyfi frá Kveik

Svavar Halldórsson og Þóra Arnórsdóttir búa saman á Ítalíu.
Svavar Halldórsson og Þóra Arnórsdóttir búa saman á Ítalíu. Ljósmynd/Styrmir Kári

Fjölmiðlakonan Þóra Arnórsdóttir er komin í ársleyfi frá fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV og flutt til Ítalíu. Þar stundar maður hennar Svavar Halldórsson meistaranám í matarmenningu og markaðssetningu í háskóla sem Slowfood-hreyfingin stofnaði.

„Börnin okkar eru akkúrat á réttum aldri þannig að þetta er hárréttur gluggi til að fara,“ segir Þóra en Svavar hóf námið í janúar síðastliðnum.

Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri RÚV, mun taka við sem ritstjóri Kveiks, án þess þó að vinna efni líkt og Þóra gerði. Heiðar Örn Sigurfinnsson, varafréttastjóri RÚV, mun á móti taka að sér hluta af stjórnunarbyrði Rakelar á fréttastofunni.

Þóra, sem talar ítölsku, segist vera afskaplega spennt fyrir komandi ári á Ítalíu og er sannfærð um að allir eigi eftir að hafa gott af dvölinni þar. Einnig er hún fullviss um að Kveikur verði öflugur næsta vetur en hann fer aftur í loftið í haust.

Örugg uppskrift að kulnun 

Í stöðuuppfærslu sem Þóra setti á Facebook-síðu sína greindi hún frá álaginu sem hún var undir þegar hún var ein heima með börnin þrjú. „Ekki mælt með: Að missa mömmu sína og gera upp dánarbú, pakka niður sjö manna og þriggja dýra fjölskyldu, vera grasekkja með þrjú börn í tímafrekum tómstundum og öflugra félagslíf en maður sjálfur og vera í fullri vinnu – samtímis, yfir nokkurra mánaða tímabil. Á tímum umræðu um kulnun og örmögnun, þá er nokkuð ljóst að þetta er örugg uppskrift að einmitt því,“ skrifaði hún á Facebook en nefndi að hún hefði fengið mjög góða hjálp úr mörgum áttum.

Spurð hvort hún hafi glímt við kulnun í starfi vísar hún því á bug og segist hafa verið ánægð í Kveik. „Það er stórkostlegt starf að vinna í Kveik og mikil forréttindi en maður verður að grípa tækifærin þegar þau gefast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert