Hrefnan flutt til urðunar í Álfsnesi

Hvalurinn er hér hífður upp á vörubílinn.
Hvalurinn er hér hífður upp á vörubílinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vel gekk að koma hvalhræi sem lá í fjörunni við Eiðsgranda á brott. Heil­brigðis­eft­ir­lit Reykja­vík­ur vann að því í sam­vinnu við Um­hverf­is­stofn­un að koma hræinu, sem var illa lyktandi, á brott og var mætt á svæðið með krana um ellefuleytið í morgun.

Það var svo rétt fyrir klukkan tólf sem búið var að koma hvalnum, sem var hrefna, upp á vörubíl á leið á urðunarstöð Sorpu í Álfsnesi þar sem hræið verður urðað.

Þorgrímur Hallgrímsson, rekstrarstjóri hverfastöðvar umhverfis- og skipulagssviðs á Njarðargötunni, hafði umsjón með verkinu. Hann segir vel hafa gengið að koma hvalnum upp á vörubílinn. „Við fengum stóran 100 tonna krana sem náði út í fjöruna,“ segir hann. Hvalurinn hafi verið dreginn þangað, slegið í sporðinn á honum og hann svo hífður upp á vörubílinn.

„Menn hafa kvartað svolítið yfir lyktinni,“ segir hann um þá sem unnu að því að fjarlægja hræið, en stæk­an fnyk lagði af dýrinu. Sjálfur segist Þorsteinn hins vegar alinn upp á hrefnu og kannist við lyktina.

Lög­regla fékk fyrst til­kynn­ingu um hval­rek­ann kl. 12.53 í gær, en þá sást hræið fljóta í sjón­um um 300 metra frá landi við Gróttu á Seltjarn­ar­nesi.

Hræið rak síðan á fjör­ur Reyk­vík­inga, í orðanna bók­staf­legu merk­ingu, og var það því á ábyrgð borg­ar­inn­ar sem land­eig­anda að koma því í burtu.

Rauði belgurinn, sem er tunga hvalsins, vakti athygli margra en tungan blés út eftir að dýrið drapst vegna gerjunar í kviðar- og brjóstholi og var talinn einhver hætta á að dýrið gæti sprungið.

Þorgrímur segir það hins vegar ekki hafa gerst. Hrefnan hafi komist heilu og höldnu upp á vörubílinn og á brott úr fjörunni.

Farið verður með hvalinn upp í Álfsnes þar sem hann …
Farið verður með hvalinn upp í Álfsnes þar sem hann verður urðaður. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Hvalur á Granda.
Hvalur á Granda. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Hvalur á Granda.
Hvalur á Granda. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert