„Tilraunin með krónuna er fullreynd“

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, gerði krónuna að sérstöku umfjöllunarefni.
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, gerði krónuna að sérstöku umfjöllunarefni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Tilraunin með krónuna er fullreynd,“ sagði Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, í ræðu sinni á Alþingi í kvöld. Lýsti hann áhyggjum af því að gjaldmiðillinn stæði í vegi fyrir vexti tæknifyrirtækja á Íslandi.

„Við munum aldrei búa íslenskum tækni- og hugverkafyrirtækjum ásættanleg rekstrarumhverfi með hana að vopni. Við munum heldur ekki skapa framtíðarkynslóðum þessa lands þau tækifæri sem þær eiga skilið, hagnýtingu góðrar menntunar eða samkeppnishæf lífskjör með svo kostnaðarsaman gjaldmiðil,“ sagði hann.

Sakaði hann ríkisstjórnina um að neita að „horfast í augu við þær áskoranir sem alþjóðleg fyrirtæki búa við hér á landi vegna sveiflukennds gjaldmiðils.“ Jafnframt væri það almenningur sem þarf að greiða þann mikla kostnað sem fylgir krónunni.

Minnir á fasismann

Ræddi Þorsteinn sérstaklega þeir hröðu breytingar sem hafa orðið á samfélaginu síðustu ár. „Heimurinn hefur minnkað og í því felast mikil tækifæri fyrir litla og vel menntaða þjóð. Það ræðst hins vegar af viðbrögðum okkar hvort okkur takist að nýta þær til hagsbóta og blómlegrar framtíðar.“

Lýsti hann hins vegar áhyggjum af því að „meiri ógn steðjar nú að lýðræðinu víða en við höfum séð um áratuga skeið. Vaxandi einangrunarhyggja, einræðislegir tilburðir og árásir á minnihlutahópa minna óþyrmilega á uppgang fasismans á þriðja áratug síðustu aldar. Ef við sofnum á verðinum gætum við vaknað í heimi sem við viljum ekki kannast við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert