Magnús boðar ný gögn í málinu

Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg.
Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg. mbl.is/Þórður

„Með þessum dómi á ég loks rétt til raunhæfs úrræðis til að leita réttar míns samkvæmt íslenskum lögum,“ segir Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxembúrg, í yfirlýsingu vegna niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem efast er um óhlutdrægni dómarans Árna Kolbeinssonar í Al-Thani-málinu vegna þess að sonur hans, Kolbeinn Árnason, starfaði fyrir bankann á sínum tíma.

Dómstóllinn telur að málsmeðferð hérlendra dómstóla hafi að öðru leyti verið með eðlilegum hætti. Magnús, sem var dæmdur í málinu ásamt Sigurði Einarssyni, Hreiðari Má Sigurðssyni og Ólafi Ólafssyni, segir ennfremur í yfirlýsingunni að niðurstaðan, sem feli í sér að brotið hafi verið gegn mannréttindum hans, sé gríðarlega mikilvæg.

„Mannréttindasáttmálinn tryggir að hver sá sem sem réttur er brotinn á eða frelsi hans skert, sem verndað er af sáttmálanum, skuli eiga raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum fyrir opinberu stjórnvaldi,“ segir hann og bætir við að íslenska ríkið hafi sérstaklega heitið því með aðild sinni að dómstólnum að hlíta endanlegum dómi hans.

„Nú liggur beint við að óska eftir endurupptöku og leggja þá fram ný mikilvæg gögn sem ekki lágu fyrir við meðferð málsins á fyrri stigum og endurmat á ýmsum atriðum er tengjast málinu.

mbl.is