„Nú gengur þetta ekki lengur“

Félag atvinnurekenda segir fyrirtækjum ekki sýnd sanngirni við álagningu fasteignagjalda.
Félag atvinnurekenda segir fyrirtækjum ekki sýnd sanngirni við álagningu fasteignagjalda. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

„Þessar hækkanir eru út úr öllu korti og af því að það er annað stjórnvald, Þjóðskrá, sem finnur skattstofninn út þá þykjast menn vera stikkfrí og þiggja bara milljarðana sem rúlla inn í sveitarsjóð,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, í samtali við mbl.is um álagningu fasteignagjalda.

Ólafur segir óásættanlegt að fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði munu hafa hækkað yfir 70% á sjö árum ef tillit til nýs fasteignamats Þjóðskrár Íslands fyrir árið 2020.

„Okkur finnst sveitarfélögin hafa sýnt algjört ábyrgðarleysi í því að verða ekki við kalli um að lækka þennan skatt til þess að halda fasteignagjöldum stöðugum eða í samræmi við hækkanir á vísitölu neysluverð, eða einhvern skynsamlegan mælikvarða.“ 

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

Raka inn milljörðum

Hann bendir á að árið 2014 voru fasteignagjöld sveitarfélaganna að meðaltali 1,64%, en lögbundið hámark er 1,65%. „Síðan þegar við skoðum árið 2018 þá er hlutfallið 1,63%, sem þýðir að einhverjir hafa lækkað skattinn pínulítið, en það er langt frá því að mæta hækkuninni á skattstofninum.“

„Sveitarfélögin eru í raun bara að raka inn milljörðunum á þessari árlegu hækkun fasteignamats. Hún endurspeglast sjaldnast i einhverju sem er að gerast innan fyrirtækjanna eða þeirra greiðslugetu, þannig að þetta þyngir reksturinn,“ útskýrir Ólafur.

Þá gagnrýnir hann sveitarfélögin fyrir að standa utan þeirra málamiðlanna sem aðilar vinnumarkaðarins og ríkið hafi þurft að gera í þágu stöðugleika. „Nú er samdráttur framundan og fyrirtækin eru þegar að glíma við kostnaðarhækkanir, meðal annars vegna kjarasamninga, þá er mjög mikill hætta á að hækkun af þessu tagi velti inn í verðlagið.“

„Nú er bara komið að sveitarfélögunum og nú gengur þetta bara ekki lengur,“ segir Ólafur.

mbl.is