Nýtt kort muni breyta umræðunni

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var viðstödd fund um þjónustukortið í Þjóðminjasafninu …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var viðstödd fund um þjónustukortið í Þjóðminjasafninu í dag. Hún sagði að kortið myndi breyta umræðunni um byggðastefnu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telur að nýtt þjónustukort muni breyta umræðunni um byggðastefnu. „Þetta er tæki sem vekur umræðu um hvaða þjónusta skuli vera í boði á hverjum stað,“ sagði hún á fundi um kortið í dag. Ég held að þetta muni breyta dálítið umræðunni um byggðastefnu.

Nú er sem sagt aðgengilegt á netinu þjónustukort fyrir land allt, þar sem finna má og fletta upp ýmsum þjónustuþáttum. Þetta er á thjonustukort.is, vef Byggðastofnunar. Þetta er gagnvirk kortasjá á netinu sem sýnir aðgengi almennings að opinberri og almennri þjónustu um land allt. Kortið er sömuleiðis nokkuð haldgott kort af Íslandi, sem virðist sýna skiptingu landshluta betur en erlend netkort af landinu.

Kortið virkar líka í farsímum og á ferðalagi og nemur þar hvar notandinn er staddur.

Á www.thjonustukort.is má dunda sér við að skoða hvaða þjónustu …
Á www.thjonustukort.is má dunda sér við að skoða hvaða þjónustu er boðið upp á víðs vegar um landið. Kortið er einnig handhægt kort í sjálfu sér. Skjáskot/Byggðastofnun

Þjónustukortið á að leggja grunn að bættri þjónustu við almenning og stuðla að frekari framþróun í byggðamálum. Það var kynnt í dag á fundi í Þjóðminjasafninu, á afmæli byggðaáætlunar ríkisstjórnarinnar 2018-2024. Kortið er enda hluti af byggðaáætluninni. Viðstaddir voru forsætisráðherra og samgöngu- og sveitastjórnarráðherra.

81 þjónustuþáttur á að vera á kortinu. Þegar hefur meirihluta gagnanna verið safnað, 58 þættir af 81 eru komnir, en næstu skref eru áframhaldandi gagnaöflun. Frekari hönnun viðmóts og virkni í þjónustukortinu stendur þá til. Dæmi um þjónustuþætti eru heilbrigðisþjónusta, verslun, menningarstofnanir og neyðarþjónusta.

Þjónustukortið liður í byggðaáætlun

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sagði þjónustukortið nýja aðeins eina af 54 aðgerðum þeim sem boðaðar voru í byggðaáætluninni sem samþykkt var síðasta sumar. Aðeins 10 af þeim 54 aðgerðum eru ekki formlega hafnar. Á öðrum milljarð króna hefur verið ráðstafað til verkefnisins.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði byggðaáætlunina ekki aðeins vera spurningu um efnahagsmál heldur einnig um réttlæti. „Landsbyggðin á að hafa aðgang að grunnþjónustu en ekki síður menningarlegum þáttum,“ sagði hún.

mbl.is