„Bíræfnir“ reiðhjólaþjófar í borginni

Frá reiðhjólauppboði lögreglunnar í maímánuði.
Frá reiðhjólauppboði lögreglunnar í maímánuði. Ljósmynd/Ómar Óskarsson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir að mikilvægt sé að fólk tilkynni það til lögreglu, vakni hjá því grunur um að reiðhjól sem það ætlar að kaupa sé illa fengið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.

Lögregla segir að nokkuð hafi borið á reiðhjólaþjófnaði á höfuðborgarsvæðinu og að þjófarnir séu „ansi bíræfnir“ og láti hvorki lása né keðjur stöðva sig við iðju sína.

„Virðist sem reiðhjól þurfi helst að geyma innandyra svo þau fái að vera í friði fyrir óprúttnum aðilum, en því miður hafa ekki allir aðstöðu til þess,“ skrifar lögregla, sem minnir einnig á að hægt er að sjá fjölda mynda af hjólum sem eru í vörslu lögreglu á Pinterest-vef þeirra.

Þar eru núna myndir af alls 112 reiðhjólum eða vespum, sem hafa ratað í óskilamunadeild lögreglu frá því í október í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert