Lögðu röksemdir sínar fyrir sáttasemjara

Björn Snæbjörnsson formaður SGS og Flosi Eiríksson framkvæmdastjóri SGS saman …
Björn Snæbjörnsson formaður SGS og Flosi Eiríksson framkvæmdastjóri SGS saman í húsakynnum ríkissáttasemjara. mbl.is/Hari

Samninganefndir Starfsgreinasambands Íslands (SGS) og Eflingar og Sambands íslenskra sveitarfélaga komu til sáttafundar í húsakynnum ríkissáttasemjara í morgun og lögðu fram greinargerðir sínar í kjaradeilunni, sem hefur verið í hnút vegna alvarlegs ágreinings um jöfnun lífeyrisréttinda. Næsti fundur í deilunni hefur verið boðaður 21. ágúst næstkomandi.

Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri SGS, segir að fulltrúar stéttarfélaganna hafi lagt fram sín rök og farið yfir þau á fundinum og að samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hafi gert svipað. Lítið annað var gert á fundinum í morgun.

„Ef að deilum er vísað til sáttasemjara ber mönnum, á fyrsta eða öðrum fundi, að gera grein fyrir kröfugerð sinni og mati á stöðu viðræðnanna og það var í raun og veru það sem fram fór í morgun,“ segir Flosi.

Deilan hefur verið í hörðum hnút vegna ágreinings um jöfnun lífeyrisréttinda á milli almenna og opinbera markaðarins og sagði Flosi í samtali við Morgunblaðið eftir síðasta fund að ekki yrði svo mikið sem rætt um launamálin fyrr en staðið yrði við gefin loforð um jöfnun þeirra.

Sveitarfélögin hafa þó hafnað því að það standi upp á þau að bæta eða bera ábyrgð á afleiðingum þess að félagsmenn stéttarfélaga í ASÍ greiði flestir í almenna lífeyrissjóði, þar sem félögin hafi á sínum tíma hafnað aðild að opinberu sjóðunum.

Sem áður segir verður næst fundað í deilunni 21. ágúst, þar sem frí verður tekið hjá ríkissáttasemjara í júlímánuði.

mbl.is