Þremenningunum sleppt úr haldi

Þremenningunum, sem voru handteknir í aðgerðum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gegn skipulagðri brotastarfsemi í síðustu viku, hefur verið sleppt úr haldi.

Rannsókn málsins miðar vel, en í þágu hennar hefur verið lagt hald á um 3 kg af amfetamíni, 90 gr. af kókaíni og rúmlega 100 e-töflur. Lögreglan hefur enn fremur haldlagt og kyrrsett eignir, en grunur er á að tilurð þeirra megi rekja til ágóða af brotastarfsemi, að því er lögreglan greinir frá.

Rannsókn lögreglu, sem staðið hefur yfir undanfarnar vikur, snýr m.a. fíkniefnamisferli og peningaþvætti, en ráðist var í þrjár húsleitir vegna þess eins og áður hefur komið fram.

Fyrrnefndar aðgerðir eru liður í baráttu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gegn skipulagðri brotastarfsemi.

„Við minnum á upplýsingasíma lögreglu 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um skipulagða brotastarfsemi, eða önnur brot sem fólk hefur vitneskju um. Ábendingum um brot má jafnframt koma á framfæri í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu,“ segir enn fremur í tilkynningunni.

mbl.is