Rispurnar sumar gerðar með áhöldum

Ólafur A. Jónsson sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun segir að brotin geti …
Ólafur A. Jónsson sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun segir að brotin geti varðað sektum eða jafnvel tveggja ára fangelsi, í verstu tilvikunum. Ljósmynd/María Elíasdóttir

„Þetta er bara óvitaskapur í sjálfu sér. Fólk áttar sig ekki á því að svona skemmdir eru bannaðar með lögum,“ segir Ólafur A. Jónsson, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, um spjöllin sem unnin hafa verið á Helgafelli við Hafnarfjörð.

Umhverfisstofnun kærði áletranir í fjallinu, sem meðal annars sýndu skammstafanir manna eða fallísk tákn ýmis, til lögreglu þegar stofnunin fékk veður af málinu. Ólafur segir í samtali við mbl.is að svona brot geti varðað sektum og jafnvel fangelsi í allt að tvö ár í alvarlegustu málunum.

Ólafur segir að Umhverfisstofnun hafi fengið landvörð af Reykjanesi til þess að fara á vettvang og meta umfang skemmdanna. „Viðkomandi sagði að þær væru töluverðar. Þetta væru bæði grynnri rispur í móberginu en einnig mun dýpri rispur, sem ljóst væri að ekki væri hægt að marka nema með sérstöku áhaldi eða hníf,“ segir Ólafur.

Verstu skemmdirnar getur kostað verulega vinnu að laga. Ólafur segir að ef viðgerðin væri látin alfarið í hendur náttúrunnar, væri ljóst að það tæki náttúruna jafnvel tugi ára að jafna áletranirnar út með veðrun.

„Þá er spurning hvað er hægt að gera. Við teljum að sé best að afmá eins mikið af þessu og unnt er. Í dýpri rispurnar þyrfti þá hugsanlega að notast við vírbursta eða jafnvel slípirokk eða önnur vélknúin tæki,“ segir Ólafur, því dýpri rispurnar geti kostað mikið átak að jafna út.

Ef fólk sér krot í steininum þá fer það að krota í steininn

Áletranirnar á Helgafelli komust í hámæli þegar myndaflokkur af þeim fór um netið eins og eldur um sinu. Ólafur segir þó að samkvæmt athugunum landvarðar eigi áletranir á Helgafelli sér lengri sögu.

„Landvörður benti á að þarna væru merkingar sem væru orðnar jafnvel á þriðja tug ára gamlar,“ segir Ólafur og til marks um það séu sjálfar áletranirnar, sem í sumum tilvikum eru einfaldlega ártöl.

Þetta hefur hins vegar færst verulega í aukana og segja má að orðið hafi sprenging undanfarnar vikur. „Það hefur náttúrulega verið mjög gott veður og viðrað vel til útivistar,“ segir Ólafur og segir að sennilega sé tenging þarna á milli.

Þetta hefur margföldunaráhrif. Því fleiri sem koma, því fleiri sjá áletranir annarra og því fleiri fá áhuga á að prófa að gera eins áletranir sjálfir. Ólafur bendir á að það sem liggi að baki þeirri hegðun sé ekki ósvipað því þegar fólk sér vörður. „Þá vill það sjálft hlaða vörðu,“ segir hann. Hið sama gildi um ummerki eftir akstur utan vega. Fólk fylgir fordæminu sem fyrir er.

Ólafur segir loks að Umhverfisstofnun hafi farið þess á leit við stjórn Reykjanesfólkvangs að hún hlutist til um málið. Málið er í ferli. Þá standi til að skoða hvort hægt sé að setja upp skilti og slíkt á svæðinu þar sem það er áréttað fyrir mönnum að svona nokkuð sé óleyfilegt.

Ljóst er að sumar sprungurnar rista alldjúpt. Veðrun er fleiri …
Ljóst er að sumar sprungurnar rista alldjúpt. Veðrun er fleiri áratugi að jafna slíkt út og notast verður við sérstök tæki. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert