Hefði mátt víkja lögreglumanni úr starfi

Málið var meira en ár í vinnslu hjá nefndinni, sem …
Málið var meira en ár í vinnslu hjá nefndinni, sem hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að ríkislögreglustjóri hefði getað leyst lögreglumanninn tímabundið frá störfum. Ríkislögreglustjórinn merkið á húsinu að utann mbl.is/Árni Sæberg

Nefnd um eftirlit með lögreglu hefur komist að þeirri niðurstöðu að Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri hefði getað vikið lögreglumanni tímabundið úr starfi árið 2011 á meðan að lögreglurannsókn á hendur honum fyrir meint kynferðisbrot gegn þremur ungum stúlkum stóð yfir. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV og einnig er fjallað um málið á vef Mannlífs.

Rannsókn á meintum brotum lögreglumannsins leiddi ekki til ákæru og hann er enn í starfi hja lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Kallar eftir afsögn ríkislögreglustjóra

Halldóra Baldursdóttir, móðir einnar af stúlkunum þremur sem kærðu lögreglumanninn, kvartaði til nefndar um eftirlit með störfum lögreglu sökum þess að lögreglumanninum var ekki vikið tímabundið frá störfum á meðan að málin voru til rannsóknar og einnig undan vanköntum sem hún taldi vera á rannsókninni.

Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri.
Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Málið var meira en ár í vinnslu hjá nefndinni, sem hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að lagalega hefði ríkislögreglustjóra verið heimilt að leysa lögreglumanninn tímabundið frá störfum.

Nefndin sá þó ekki tilefni til þess að senda ríkislögreglustjóra tilmæli eða aðhafast frekar í tilefni af erindi Halldóru, samkvæmt því sem fram kemur á vef Mannlífs.

Niðurstaða nefndarinnar er á skjön við yfirlýsingu sem ríkislögreglustjóri sendi frá sér vegna fjölmiðlaumfjöllunar um málið í maí í fyrra, en þá ítrekaði ríkislögreglustjóri að ekki hefði verið lagaheimild fyrir því að setja lögreglumanninn til hliðar, þar sem embættið hefði ekki fengið að sjá rannsóknargögn málsins.

Halldóra sagði við RÚV að með niðurstöðu sinni hafi nefnd um eftirlit með lögreglu staðfest að hún hafi haft rétt fyrir sér og að hún hafi sent Umboðsmanni Alþingis kvörtun vegna málsins. Hún kallar eftir því að ríkislögreglustjóri segi af sér vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert