Lúsmýið komið í Vesturbæinn

Lúsmý er lítið og vart sjáanlegt berum augum. Nú hefur …
Lúsmý er lítið og vart sjáanlegt berum augum. Nú hefur það ratað alla leið vestur í bæ og Líf Magneudóttir stjórnmálamaður er nýjasta fórnarlamb þess. En hún lætur ekki hugfallast. Samsett mynd

Líf Magneudóttir borgarfulltrúi Vinstri grænna vaknaði margbitin eftir lúsmý í nótt. Hún á heima á fjórðu hæð í húsi við Hagamel í Vesturbænum. Ljóst má því vera að „lúsmýið er komið í Vesturbæinn,“ eins og Líf staðfestir líka í samtali við mbl.is.

Hún og sonur hennar eru fórnarlömb vágestsins. Kláði og upphleypt bit, stungusár.

„Ég bara vaknaði með fimm bit á lærinu,“ segir Líf. Hún er búin að liggja heima í flensu dögum saman og hefur lítið hætt sér út fyrir borgarmörkin. „Og þetta eru bit sem ég fékk í morgun,“ segir hún og því er útilokað að hún kynni að hafa fengið þau annars staðar en í Vesturbæ.

„Það er útilokað að þetta séu starrabit. Þau eru öðruvísi. Sonur minn hefur verið bitinn undanfarnar nætur en ég hugsaði að þetta gæti ekki verið hér,“ segir Líf. Svo var, hins vegar, og það fékk Líf staðfest þegar hún hún vaknaði svo sjálf bitin.

Líf býr á fjórðu hæð og það mætti ímynda sér að svo hátt flygi auvirðilegt lúsmý ekki en þar skjátlast manni. Lúsmý hefur helst verið að herja á fólk á suðvesturhorninu á sumarbústaðarsvæðum og í sveitum. 

„Ég ætla að reyna finna þessa pöddu ef það er hægt, sem mér reyndar skilst að sé ekki. En það þarf að uppræta skaðvaldinn ef hann er bara einn á ferð,“ segir hún.

Líf nefnir að atvikið hafi breytt grundvallarviðhorfum sínum til lands síns. „Ég fór til Portúgal fyrir skemmstu og var bitin þar af moskító. Ég fæ svo rosalegt ofnæmi og var illa leikin þannig að þegar ég kom heim hugsaði ég: það besta við Ísland er ekkert moskító. Þannig að nú þarf ég að éta það ofan í mig. Ætli nú sé ekki bara vatnið orðið það besta við Ísland aftur,“ segir hún.

mbl.is