Lúsmýið er komið á kreik

Lúsmýið er komið á kreik, eins og þess er árviss …
Lúsmýið er komið á kreik, eins og þess er árviss von og vísa um miðbik júní. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslensk kona var bitin af lúsmýi í Efstadalslandi við Laugarvatn í gær. Konan er með ofnæmi fyrir lúsmýi, þannig að hún þekkir viðbrögðin vel og segir við mbl.is að ljóst sé að lúsmýið sé að ranka við sér. 

Þegar hún fór í apótek í Mosfellsbæ til þess að kaupa smyrsl til að bera á bitin sögðu afgreiðslumenn að fólk væri smátt og smátt farið að tínast inn af þessum sömu sökum.

Lúsmýið er sem sagt komið á kreik, eins og Steinar Smári Guðbergsson meindýraeyðir staðfestir við mbl.is. Frá því á fimmtudag hefur hann verið á ferð og flugi eftir lúsmýi allt frá Grafarvogi í Reykjavík til Ölfuss í Árnessýslu á vegum fyrirtækis síns Meindýraeyðis Íslands ehf.

Steinar Smári Guðbergsson.
Steinar Smári Guðbergsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er byrjað,“ segir Steinar. Lúsmýið er stundvíst í ár en Steinar segir það einmitt vant að rata til Íslands á milli 10.-15. júní. 

Faraldurinn slæmur í fyrra

Steinar, sem hefur eitrað fyrir lúsmý síðan það fór fyrst að valda vandræðum á Íslandi 2013, telur að lúsmýsfaraldurinn í ár verði ekki ósvipaður og í fyrra. Í fyrra fór hann fyrr af stað, sem helgaðist af hærra hitastigi. Faraldurinn var síðan einkar slæmur og margir glímdu við mikil bit og bólgur vegna skordýranna.

Til útskýringar segir Steinar að þekkja megi lúsmýið á pínulitlum flugunum úti í glugga, sem oft liggja þar dauðar. Þær lifa ekki lengi en eru mjög margar. Hugsanlegt er að fá bit frá öðrum skordýrum hér á landi, þá helst veggjalús eða starafló. Bit hinnar fyrrnefndu eru oft nokkur saman á litlu svæði en síður útbreidd um líkamann. Þær fela sig í rúmi fólks. Starafló er aftur á móti öllu sjáanlegri og stærri en bitin hennar eru minni og ekki eins alvarleg.

Lúsmý grasserar helst þar sem er logn og eins og kom fram í viðtali við Steinar á mbl.is síðasta sumar þýðir það að það sæki frekar í skjólsæl svæði en ekki staði eins og Selfoss, Eyrarbakka, Stokkseyri eða Hellu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert