Handtekinn eftir átök í heimahúsi

Alls komu 83 mál inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu …
Alls komu 83 mál inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöld og nótt. mbl.is/Eggert

Maður var handtekinn í gærkvöld eftir að lögreglu barst tilkynning um slagsmál og læti í heimahúsi í Austurbænum. Tveir karlmenn og kona voru í átökum og hlutu þau öll minni háttar áverka. Maðurinn sem var handtekinn var vistaður í fangageymslu og er málið í rannsókn.

Alls komu 83 mál inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöld og nótt. Um klukkan sjö í gærkvöld bárust lögreglu nokkrar tilkynningar um hugsanlega ölvaðan ökumann sem sýndi rásandi aksturslag og ók upp á kanta. Lögreglan stöðvaði ökumanninn stuttu síðar sem reyndist ofurölvi. Var hann vistaður í fangageymslu að lokinni sýnatöku.  

Líkt og mbl.is greindi frá var ökumaður fólks­bif­reiðar flutt­ur á slysa­deild í gærkvöld eft­ir útafa­kst­ur við Meðal­fells­vatn í Kjós. Hafnaði bif­reiðin úti í skurði og þurfti að beita klipp­um til að ná öku­mann­in­um úr bíln­um.

Fram kemur í dagbók lögreglu að maðurinn er grunaður um ölvun við akstur. Var hann fluttur með sjúkrabíl á bráðamóttöku Landspítala með minni háttar áverka.

Rétt fyrir klukkan tvö í nótt barst lögreglu tilkynning um slys utandyra í Breiðholti. Um var að ræða sjötugan ölvaðan mann og sögðu sjónarvottar hann hafa dottið á höfuðið. Maðurinn var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild.

Þá var einn ökumaður stöðvaður í Kópavogi vegna gruns um ölvun við akstur og annar í Grafarvogi vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Voru þeir báðir látnir lausir að lokinni sýnatöku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert