19 milljónir í sekt áratug síðar

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi karlmann í 30 daga fangelsi fyrir brot …
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi karlmann í 30 daga fangelsi fyrir brot gegn valdstjórninni. mbl.is/Ófeigur

Jón Ingi Gíslason hefur fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur verið dæmdur til að greiða 19,5 milljónir í sekt og til tveggja mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir að hafa skilað efnislega röngum skattframtölum fyrir árin 2007 og 2008. Hafði hann ekki gefið upp rúmlega 110 milljón króna fjármagnstekjur og þannig komist undan því að greiða 11 milljónir í fjármagnstekjuskatt.

Þá var Jón Ingi dæmdur til þess að greiða íslenska ríkinu 19,3 milljónir í sekt innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins. Geri hann það ekki á hann yfir sér 270 daga fangelsisvist. Er honum einnig gert að greiða málsvarnarlaun verjenda síns sem nema 3,8 milljónum króna.

Fjármagnstekjurnar var að rekja til 44 gjaldmiðlasamninga sem gerðir voru við Glitni banka, en Jón Ingi kvaðst fyrir dómi ekki haft vitneskju um hvern og einn samning þar sem hann hafi veitt starfsmönnum Glitnis umboð til þess að ávaxta fé hans með gengismunarsamningum.

Enn í embætti

Jón Ingi steig til hliðar úr embætti formanns Framsóknarfélags Reykjavíkur eftir að hann varð ákærður í júní 2013. Síðar tók hann við embætti formanns kjördæmafélags Framsóknarflokksins í Reykjavík, en siðanefnd flokksins tók mál hans til umfjöllunar 2017 og komst að því að Jóni Inga bæri að stíga til hliðar úr öllum trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn á meðan mál hans er í meðferð hjá dómstólum.

Hann varð ekki við beiðni siðanefndar og gegnir enn embætti formanns. Þá gegnir Jón Ingi einnig embætti formanns Kennarafélags Reykjavíkur.

Stófellt hirðuleysi

Þá bar hann það fyrir sér að hann hafi verið fullviss um það að bankinn myndi sjá um greiðslu fjármagnstekjuskatt ef slík skattskylda myndi skapast og að hann hafi verið í góðri trú um að framtölin hafi verið rétt.

Fram kemur í niðurstöðum dómstólsins að samningur mannsins við Glitni hafi ekki gefið tilefni til þess að gera mætti ráð fyrir að bankinn myndi ábyrgjast skattskil vegna hagnaðar sem myndaðist við gerð samninganna. Þá hafi manninum staðið til boða að afla sér nauðsynlegar upplýsingar vegna stöðu samninganna að vild.

Segir í dómi að um sé að ræða „meiri háttar brot“ og „stórfellt hirðuleysi“ af hálfu mannsins.

Miklar tafir á málinu

Sex ár hafa liðið frá því að Jón Ingi var ákærður og hafa orðið talsverðar tafir á málsmeðferðinni.

Þegar málið var þingfest 29. mái 2013 neitaði maðurinn sök og var því frestað til september sama ár. Var málinu á ný frestað af beiðni Jóns Inga þar sem beðið væri úrskurðar yfirskattanefndar í kæru sem hann gerði vegna úrskurðar ríkisskattstjóra árið 2012.

Þegar málið var aftur tekið til meðferðar fyrir dómstólnum 2014 var málinu frestað á ný, þá af hálfu dómara sem taldi ástæðu til þess að bíða dóms Mannréttindadómstóls Evrópu um reglur er snúa að banni við endurtekinni refsingu eða málsmeðferð.

mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Dómari vanhæfur

Málið var síðan tekið fyrir á ný í desember 2016. Átti aðalmeðferð að fara fram maí 2017, en málinu var frestað til nóvember það ár. Þá krafðist Jón Ingi að málinu yrði vísað frá og þurfti því að fresta málinu frekar til þess að hægt yrði að flytja frávísunarmálið.

Þegar átti að taka fyrir frávísunarkröfu mannsins í byrjun árs 2018 krafðist verjandi hans að dómari myndi víkja vegna vanhæfis. Var þeirri kröfu hafnað og síðar staðfest af Landsrétti. Samþykkti síðan héraðsdómur á að vísa málinu frá í ljósi ákvæða mannréttindasáttmála Evrópu um endurtekna málsmeðferð.

Var frávísuninni skotið til Landsréttar sem komst að þeirri niðurstöðu í júní 2018 að ekki væri um brott gegn sáttmálanum að ræða. Fór Jón Ingi á ný fram á frávísun á grundvelli nýrra dómafordæma Mannréttindadómstóls Evrópu. Þeirri kröfu var hafnað í mars 2019.

Dómur féll síðan endanlega fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á mánudag, en dómurinn var birtur í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert