„Bullandi meðvindur“ í Reykjadal

Keppendur í WOW-hjólakeppninni snemma í morgun.
Keppendur í WOW-hjólakeppninni snemma í morgun. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Betur viðrar nú á hjólaliðin í A- og B-flokki en fremstu lið nálgast nú Laugar í Reykjadal í „bullandi meðvindi“ að sögn liðsmanna Airport Direct. 

Það urðu nokkrar sviptingar meðal fremstu liða í B-flokki í nótt. Lið World Class, Airport Direct og Advania eru nú þrjú fremst og virðast hafa skilið félaga sína í Fjallbræðrum eftir, en liðin unnu fjögur saman framan af. Fjallabræður hafa dregist nokkuð aftur úr fyrsta hóp og eru nú með Team Cyren, Securitas og Tindi hjá Fosshól. A lið deCODE B er á svipuðum slóðum en samkvæmt korti er systurliðið deCODE J nú langt fyrir aftan. 

Vel hefur dreifst úr liðunum núna en flest eru þau stödd í Eyjafirðinum í ágætisveðri, að því er segir í tilkynningu. 

Chris Buk­ard miðar vel og hefur verið heppinn með veður og vind í keppninni hingað til. Hann er staddur við Hof í Öræfum og sækist ferðin vel. Aðstandendur WOW-hjólakeppninnar mæla með því að fólk kynni sér Instagram Bukard þar sem hann lýsir ferðalaginu. Meðal annars því hann varð að hægja á sér þar sem hann lenti á eftir hópi af kindum í morgunsárið.

Terri Huebler er komin langleiðina yfir Möðrudalsöræfin en þar ákvað Eiríkur Ingi að hætta keppni rétt eftir miðnætti. Samkvæmt stöðuuppfærslu frá honum voru hnén ekki að vinna með honum og honum sóttist ferðin hægt þrátt fyrir gríðarlega hagstæð veðurskilyrði sem hefðu átt að flýta för. 

Ofurhetjurnar í Hjólakrafti eru nú staddar á Lóni og verða því komnar á Hornafjörð áður en langt um líður. Veðrið hefur leikið ágætlega við þau í nótt, t.d. var stafalogn í Berufirði um kl. 4 í nótt, og allir í miklu stuði þar á bæ, að því er segir í tilkynningu.

Í áheitakeppninni hefur ekkert lið brotið 200.000 króna múrinn en vonir stóðu til þess að Verkís myndi neyðast til að standa við gefin loforð um „gimp“ á hjóli á Akureyri sem ekkert varð svo úr. Toyota leiðir enn áheitakeppnina ásamt Hjólakrafti og World Class. 

Hér er hægt að fylgjast með keppendum

mbl.is