Hitaði upp fyrir sigurinn með 93 km hring

Geir Ómarsson þríþrautakappi sigraði í Snæfellsjökulshlaupinu sem fram fór í …
Geir Ómarsson þríþrautakappi sigraði í Snæfellsjökulshlaupinu sem fram fór í dag. Fyrir hlaupið „hitaði hann upp“ með því að hjóla 193 kílómetra um Snæfellsnesið. mbl.is/Alfons Finnsson

Geir Ómarsson þríþrautakappi hrósaði sigri í Snæfellsjökulshlaupinu sem fram fór í dag. Geir átti ekki von á sigri þar sem hann var líklega eini keppandinn sem hitaði upp fyrir hlaupið með því að hjóla 93 kílómetra um Snæfellsnes áður en hlaupið hófst. 

„Ég er að fara að keppa í Extreme Iceland Triathlon sem fer fram á nákvæmlega sama stað í lok júlí og þetta var svona upphaflega planað sem æfing fyrir þá keppni,“ segir Geir í samtali við mbl.is. 

Extreme Iceland Triathlon verður fyrsta keppnin hér á landi þar sem keppt verður í heilum járnkarli, þar sem keppendur synda 3,8 km, hjóla 180 km og hlaupa að lokum maraþon, 42,2 km. „Þetta er reyndar svona extreme-útgáfa af járnkarlinum þar sem synt er í Kolgrafafirði, 3,9 km, svo eru hjólaðir 195 kílómetrar í kringum nesið og svo er hlaupið fram og til baka þessi leið sem var farin í Snæfellsjökulshlaupinu, um 44 kílómetrar,“ segir Geir. 

Geir telur að langflestir keppendur verði erlendir. „Það eru hátt í hundrað útlendingar að fara að taka þátt en kannski svona fimm Íslendingar þannig að það verður skemmtilegt og gaman fyrir bæjarfélögin í kring að halda svona keppni.“ 

Sigurinn kom á óvart

Undirbúningurinn gengur vel en Geir kom sjálfum sér á óvart að sigra í hlaupinu í dag. Hlaupaleiðin er 22 kílómetrar og er langstærsti hluti hlaupsins malarvegur. Fyrstu átta kílómetrarnir eru upp í móti í um það bil 700 metra hæð og síðan tekur hlaupaleiðin að lækka þar til komið er til Ólafsvíkur. Geir kom í mark á einni klukkustund, þrjátíu mínútum og 43 sekúndum, tæpum þremur mínútum á undan Vigni Má Lýðssyni sem var í öðru sæti. Í þriðja sæta hafnaði svo Valur Þór Kristjánsson á tímanum 1:35:53. 

Í kvennaflokki kom Sigurbjörg Jóhannsdóttir fyrst í mark á tímanum 1:53:19. Sonja Sif Jóhannsdóttir var einungis 15 sekúndum á eftir Sigurbjörgu og í þriðja sæti var Íris BLöndahl Kjartansdóttir á tímanum 1:59:26. 

„Ég átti ekki von á þessu, ég er búin að vera í erfiðum æfingum alla vikuna en svo bara gekk þetta svona ljómandi vel. Það voru sterkir keppendur þarna, ég var búinn að sjá það, þannig ég var hrikalega ánægður með að hafa unnið þetta,“ segir Geir. 

Þrír efstu keppendur í karla- og kvennaflokki ásamt hjónunum Rán …
Þrír efstu keppendur í karla- og kvennaflokki ásamt hjónunum Rán Kristinsdóttur og Fannari Baldurssyni, en þau standa að þessu hlaupi í níunda sinn ásamt aðstoðarmönnum. Ljósmynd/Alfons Finnsson

Á besta tíma Íslendings í þríþraut

Geir hefur alltaf haft gaman af hlaupum en frá því að hann hóf af æfa þríþraut af kappi hefur hann bætt sig mikið, en hann á til að mynda besta tíma Íslend­ings í þríþraut. Þeim árangri náði hann þegar hann keppti í Járn­karl­in­um í Barcelona í september 2017 og lauk keppni á 8 klukku­stund­um, 39 mín­út­um og 34 sek­únd­um. 

„Ég var alltaf ágætlega sterkur í útihlaupunum og svoleiðis þegar ég æfði handbolta og fótbolta og svo hef ég í gegnum tíðina tekið þátt í götuhlaupum en þar var kannski fyrst eftir að ég fór að æfa þríþraut að framfarirnar fóru að koma, þá fór ég að verða hraðari og hraðari og með þríþrautinni kemur gott jafnvægi á milli æfinga þó að maður sé ekki að hlaupa jafn mikið og þegar maður er að æfa fyrir maraþon þá hjálpar hjólið manni mikið og sundið, maður er almennt séð í góðu formi. Ég hef verið að bæta mig síðustu sjö, átta ár nokkuð reglulega.“ 

Geir er ekki með nákvæma tölu á hversu mörgum þríþrautum  hann hefur keppt í, en þær eru að verða ansi margar. „Ég reyni að keppa í flestum keppnunum hérna heima ef ég hef tíma í það og ég hef örugglega farið í svona átta eða níu, jafnvel tíu, hálfa járnkarla, bæði hérlendis og erlendis og fimm sinnum í heilan járnkarl, allt erlendis.“ 

„Æfa, æfa, borða og sofa“

Aðspurður hvort hann hafi tíma til að gera nokkuð annað en að æfa og keppa skellir Geir bara upp úr. „Það er eiginlega bara vinnan og æfa, æfa, borða og sofa. Núna þegar maður er að toppa í æfingum er ekki tími fyrir mikið annað, maður er ekki mjög duglegur í félagslífinu,“ segir Geir, en tekur undir með blaðamanni að heilmikið félagslíf sé í kringum æfingarnar. Geir þjálfar einnig hjá þríþrautafélaginu Ægi. „Það er hluti af félagsstarfinu að vera að æfa með þeim sem æfa í klúbbnum.“ 

En hvað er skemmtilegast. Að synda, hjóla eða hlaupa?

„Ég hugsa að mér finnist skemmtilegast að hjóla og jafnvel að hlaupa, ég er sterkastur í hlaupinu, en sundið er lakasta greinin mín, en það er alltaf að koma til. En það er rosalega gaman að hjóla, bæði hérna heima og að fara út í æfingaferðir, það er alveg æðislegt. Hjólreiðarnar eru svo fjölbreyttar en ég hef alltaf verið mikið fyrir að hlaupa.“

Geir segist vera sterkastur í hlaupinu en lakastur í sundinu. …
Geir segist vera sterkastur í hlaupinu en lakastur í sundinu. Skemmtilegast finnst honum samt að hjóla. Ljósmynd/marathon-photos.com

Kolagrafafjörðurinn leit út fyrir að vera ansi kaldur

Geir hjólaði bæði og hljóp í dag og því liggur beinast við að spyrja af hverju hann skellti sér ekki líka til sunds, svona fyrst hann var að þessu? 

„Ég ætlaði að synda eftir keppnina en svo keyrðum við framhjá Kolgrafirðinum en hann leit út fyrir að vera ansi kaldur þannig að ég lagði ekki alveg í það og ákvað að bíða með það, ég rúlla þangað á næstu vikum og tek smá sundsprett,“ segir Geir. 

Í staðinn hélt hann upp á sigurinn með því að bjóða foreldrum sínum í mat en þau fagna 50 ára brúðkaupsafmæli í dag. „Við fjölskyldan buðum þeim í mat og ákváðum að halda upp á þetta þannig,“ segir Geir. Á morgun taka svo æfingar við að nýju.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert