Aldrei séð aðrar eins tölur á mælinum

Maðurinn mældist með 4,31 prómill af áfengi í blóðinu.
Maðurinn mældist með 4,31 prómill af áfengi í blóðinu. Ljósmynd/lögreglan

Lögreglan á Suðurnesjum handtók í vikunni ökumann, en áfengismagn í blóði hans mældist 4,31 prómill. Segir lögreglan að vakthafandi lögreglumenn sem eigi nokkra tugi ára að baki í lögreglunni hafi aldrei séð aðra eins tölu á áfengismælinum.

Lögreglunni hafði borist tilkynning um rásandi ökulag bifreiðar um hádegisbil í vikunni og stöðvuðu lögreglumenn bifreiðina stuttu síðar. „Ljóst var strax að ökumaður var alls ekki í standi til að aka bifreið og í raun var hann ekki í standi til að vera á fótum,“ segir í færslu lögreglunnar á Facebook. Var hann handtekinn í kjölfarið og látinn blása í áfengismæli. 

Sem fyrr segir var niðurstaðan sú að hann var með 4,31 prómill áfengismagn í blóðinu. Segir lögreglan að ökumaðurinn eigi von á ansi langri „ökuleyfissviptingu og svimandi hárri sekt“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert