HM-umgjörð á Akureyri

Stjörnustrákar stilla sér upp í varnarvegg og biðja sennilega til …
Stjörnustrákar stilla sér upp í varnarvegg og biðja sennilega til Guðs að boltinn hæfi einhvern annan en akkúrat þá sjálfa. Lítil hætta er á því; aukaspyrnan virðist góð. mbl.is/Þorgeir

Um tvö þúsund strákar á aldrinum 11 til 12 ára leika nú listir sínar á N1-mótinu á Akureyri, sem haldið er í 33. sinn, og hafa þátttakendur aldrei verið fleiri.

Á þeirri nýjung var bryddað fyrir nokkrum árum að hefja beinar sjónvarpsútsendingar af mótinu. Allir leikir á velli átta eru nú sýndir í beinni útsendingu á Youtube-rás KA og ekki nóg með það heldur er þeim lýst líkt og sönnum kappleik sæmir. Framkvæmdin er í meira lagi metnaðarfull, en alls eru 76 leikir í beinni útsendingu frá morgni til kvölds á leikdögunum fjórum. Ágúst Stefánsson mótstjóri segir að reynt sé eftir bestu getu að dreifa leikjum þannig að sem flest lið fái að leika á sjónvarpsvellinum, en ljóst að færri komast að en vilja.

Þátttökumet var enda slegið á mótinu nú og eru um 2.000 drengir mættir til leiks í 206 liðum. 

„Kristján Þórbergur leikur upp völlinn.“ Frá útsendingu á leik Stjörnunnar …
„Kristján Þórbergur leikur upp völlinn.“ Frá útsendingu á leik Stjörnunnar og KR í dag. Skjáskot/Youtube

Nafnakraðakið truflar ekki lýsendur, sem hafa fengið upplýsingar frá félögunum um nöfn og treyjunúmer allra leikmanna og geta því greint skilmerkilega frá öllu sem þeir taka sér fyrir hendur, eða fætur öllu heldur, á vellinum. Foreldrum gefst svo kostur á að kaupa upptökur af leikjum sinna manna gegn vægu gjaldi.

N1-mótið hófst á miðvikudag á riðlakeppni, en nú er útsláttarkeppni hafin. Fyrirkomulag mótsins er þannig svipað og í heimsmeistarakeppninni en þó með þeirri undantekningu að spilað er um öll sæti á mótinu. Þannig keppa öll lið jafnmarga leiki hvernig sem þeim árar í riðlakeppninni.

Ágúst segir að mótið hafi heppnast frábærlega hingað til og keppendur ekki látið smávegis úrkomu gærdagsins á sig fá. Mótshaldarar gera ráð fyrir að um 2-4 ættingjar og vandamenn fylgi hverjum þátttakanda og því óhætt að áætla að á bilinu 8-10.000 manns séu nú saman komnir norðan heiða til að taka þátt í mótinu. „Þetta er fyrir löngu orðin stærsta ferðahelgin hér á Akureyri,“ bætir Ágúst við.

Mótinu lýkur á morgun, en kvöldskemmtun verður í íþróttahöllinni í kvöld þar sem rappararnir Emmsjé Gauti og Herra Hnetusmjör hyggjast trylla lýðinn.

Áhugasamir geta fylgst með töktunum í beinni útsendingu hér að neðan. Leikjaplanið má finna hér, en sem fyrr segir er sjónvarpað frá leikjum á velli númer átta.:

Guðni Th. Jóhannesson forseti fylgist með af ákefð. Hann hefur …
Guðni Th. Jóhannesson forseti fylgist með af ákefð. Hann hefur kannski misst af ábendingunni um að leikirnir væru teknir upp. mbl.is/Þorgeir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert