Flestar breytingar gerðar fyrir íbúafund

Þó nokkrar breytingar hafa verið gerðar á fyrirhuguðum byggingaráformum í Stekkjabakka í Reykjavík, við jaðar Elliðaárdalsins, frá því hugmyndir voru fyrst kynntar í skipulags- og samgönguráði borgarinnar í september í fyrra.

Flestar þeirra voru hins vegar síðasta haust áður en boðað var til íbúafundar í Gerðubergi í febrúar. Var það hitafundur og skiptust fundargestir í tvær fylkingar, með og á móti framkvæmdunum. Þær breytingar sem gerðar voru eftir fundinn voru minni háttar auk leiðréttinga, að því er fram kemur í svari Þráins Haukssonar, landslagsarkitekts hjá Landslagi, sem vann að skipulaginu.

Svæðið sem um ræðir er á mörkum græna svæðis dalsins, upp við umferðargötuna sjálfa, en í samtali við mbl.is á dögunum segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, að svæðið hafi um árabil verið „hálfgerð eyðimörk“ og það sé vilji yfirvalda að svæðið verði nú að skemmti­legu svæði fyr­ir alla sem er tengt niður í Elliðaárdalinn, en Þórdís býr sjálf í Breiðholti.

Gert er ráð fyrir svæði undir matjurtagarð, heimili fyrir geðfatlaða og 4.500 fermetra gróðurhvelfingu fyrirtækisins Aldin BioDome, sem verður hjúpuð gleri. Þar inni er ráðgert að rækta framandi plöntur og taka á móti gestum í nokkurs konar innanhússgrasagarð. Síðastnefnda tillagan er helst sú sem stendur í fólki, en því fylgir einnig um 4.400 fermetra bílastæði sem á að nýtast svæðinu öllu.

Gróðurhvelfingin niðurgrafin og færð nær veginum

Frá því tillagan kom fyrst fram hafa þær breytingar verið gerðar að bílastæðum hefur verið fækkað, byggingarreitur gróðurhvelfingarinnar færður lengra frá bökkum Elliðaár og hvelfingin sjálf færð nær umferðargötunni Stekkjarbakka. Þá hefur hæð hvelfinganna verið lækkuð úr 15 metrum í 9 metra yfir landhæð en þess í stað verða byggingarnar að hluta til grafnar í jörðu. Til samanburðar er glerkúpull Perlunnar um 14 metra hár, en þá er einungis átt við hjúpinn sjálfan sem stendur á ellefu metra háum tönkum sem áður gegndu hlutverki vatnstanka.

Þá var lóð vestast á svæðinu, sem ætluð var garðyrkjuverslun, einnig tekin út úr skipulaginu en lóðamörk eftir sem áður skilgreind svo ætla má að þar geti í framtíðinni verið byggt.

Svæðið við Stekkjarbakka, þar sem fyrirhugaðar framkvæmdir verða, liggur á …
Svæðið við Stekkjarbakka, þar sem fyrirhugaðar framkvæmdir verða, liggur á milli vegarins og dalsins sem skilgreindur er sem borgargarður. mbl.is/Árni Sæberg

Litlar breytingar eftir íbúafund

Frá því íbúafundur var haldinn í febrúar hafa síðan verið gerðar minni háttar breytingar, líkt og áður kom fram. Mörk deiliskipulagsbreytinganna voru færð lítillega til suðurs, út fyrir mörk svæðis á náttúruminjaskrá en Elliðavatn og vatnasvið árinnar eru þar á skrá.

Auðkenningu fyrir fornleifar við Vatnsveituveg var bætt við, en á svæðinu úir og grúir af sögulegum minjum, þar á meðal hið forna Kjalarnesþing, elsti þingstaður Íslands. Þá var tekin ákvörðun um að auka við gróður norðan Stekkjarbakka, nær dalnum, sem ætti að fela byggingarnar betur frá útivistarsvæðinu. Auk þess voru breytingar gerðar á legu fráveitulagna.

Teikningin sýnir fyrirhugaðar framkvæmdir sunnan árinnar.
Teikningin sýnir fyrirhugaðar framkvæmdir sunnan árinnar. Teikning/Landslag
Breytingar voru gerðar á skipulaginu eftir ábendingar frá íbúum. Mörgum …
Breytingar voru gerðar á skipulaginu eftir ábendingar frá íbúum. Mörgum finnst þó að ekki hafi verið nógu langt gengið. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert