Úrskurðaður í fjögurra vikna varðhald

Maðurinn er grunaður um tilraun til manndráps.
Maðurinn er grunaður um tilraun til manndráps. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Maður sem grunaður er um tilraun til manndráps í Neskaupstað í nótt hefur verið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald. Þetta staðfestir Helgi Jensson saksóknari í samtali við mbl.is. Hinn grunaði gekk fyrir dómara í dag, sem staðfesti gæsluvarðhaldsbeiðnina.

Maðurinn er grunaður um að hafa ítrekað stungið fórnarlambið í hönd og fótlegg. Hann komst undan árásarmanninum og yfir til nágranna sinna þar sem hringt var á hjálp. Hann var færður með sjúkraflugi til Reykjavíkur og gekkst undir aðgerð, en er á batavegi nú og útskrifaðist af gjörgæslu í dag.

Að sögn systur hins stungna er hann slappur og aumur, en allt sé á réttri leið. Árásarmaðurinn er frændi kærustu fórnarlambsins og hafði hann haft í hótunum við fórnarlambið um nokkurt skeið.

mbl.is