Ferðamaður festist inni á klósetti

Lögregla kom skilaboðum áleiðis til Reykjavíkurborgar um að hurðin á …
Lögregla kom skilaboðum áleiðis til Reykjavíkurborgar um að hurðin á almenningssalerninu væri biluð. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á ellefta tímanum í morgun var lögregla kölluð að almenningsklósetti í miðborg Reykjavíkur, en þar var ferðamaður læstur inni og gat með engu móti komist út. Lögregla náði ferðamanninum út og kom svo skilaboðum áleiðis til Reykjavíkurborgar um að hurðin á almenningssalerninu væri biluð.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, þar sem farið er yfir helstu verkefni dagsins. Þau hafa ekki öll verið jafn brosleg og það sem greint er frá hér að ofan.

Umferðarslys varð í Skeiðarvogi í Reykjavík á áttunda tímanum í morgun, er ökumaður missti stjórn á bíl í krappri beygju og hafnaði utan vegar í trjágróðri. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar, en meiðsli hans eru talin minniháttar. Bifreiðin er hins vegar óökufær.

Snemma í morgun bárust lögreglu svo nokkrar tilkynningar um að kona væri að haga sér undarlega í Langholtshverfi í Reykjavík. Lögregla fann konuna og var hún þá í annarlegu ástandi, en hún er grunuð um þjófnað á nokkrum stöðum. Hún var handtekin og sett í fangageymslu, en hún hafði á sér muni sem taldir eru þýfi.

mbl.is