Belgísku hjónin „mjög, mjög þakklát“

Björgunarleiðangurinn tók um það bil átta klukkustundir. Mynd úr safni.
Björgunarleiðangurinn tók um það bil átta klukkustundir. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert

Belgísku hjónin sem týndust á Kili í gærkvöldi voru við góða heilsu þegar björgunarsveitarbíllinn keyrði upp að þeim rétt eftir miðnætti í nótt, segir Viðar Arason í aðgerðastjórn björgunarmiðstöðvar á Selfossi.

Viðar segir hjónin hafa verið „mjög, mjög þakklát“ björgunarsveitum fyrir aðstoðina og að þau hafi verið miður sín yfir því að hafa þurft að kalla eftir aðstoð.

Allar björgunarsveitir Árnessýslu voru kallaðar út um níuleytið í gær til að leita að hjónunum sem eru á fimmtugsaldri. Höfðu þau lagt af stað frá Gíslaskála um miðjan dag en urðu viðskila við tvo syni sína á leiðinni til baka.

Fundu hjónin með hljóðleit

„Það var um níuleytið í gær þegar tveir strákar komu í Gíslaskála og tilkynntu að þeir hefðu orðið viðskila við foreldra sína. Þau ætluðu að taka krók í kringum Beinhól,“ segir Viðar í samtali við mbl.is. Hann bætir því við að Beinhóll við Kjalfell sé svæði sem sé mjög erfitt yfirferðar í þoku.

Beinhóll við Kjalfell er erfitt viðureignar í þoku. Sögur ganga …
Beinhóll við Kjalfell er erfitt viðureignar í þoku. Sögur ganga enn um örlög Reynisstaðabræðra sem urðu úti við Beinhól á Kili árið 1789. Mynd úr safni. mbl.is/Sigurður Bogi

Aðgerðastjórn var virkjuð um leið og voru fyrstu bílarnir, frá björgunarsveitinni Ingunni á Laugarvatni og björgunarsveitinni Biskup í Reykholti, sendir af stað.

„Þeir voru með sírenur og ljósin í gangi allan tímann og þannig gátum við fengið fólkið til að staðsetja sig. Þau heyrðu í sírenunni og sáu ljósin og létu neyðarlínunna vita,“ útskýrir Viðar og bætir við:

„Við fundum þau með hljóðleit, við köllum þetta hljóðleit. Þau hringdu í neyðarlínunna nokkrum sinnum og það var einhverjir tungumálaerfiðleikar en við gátum nokkurn veginn staðsett þau.“

Björgunarsveitarbíllinn keyrði upp að þeim

Neyðarvörður sagði þeim að halda kyrru fyrir sem var hárrétt ákvörðun að sögn Viðars.

„Það er erfitt að fara ekki af stað þegar þau eru hrædd og það er óþægilegt að standa í rigningu og þoku einhversstaðar í nokkra klukkutíma. En þetta var hárétt ákvörðun og svo einfaldlega keyrði björgunarsveitarbíllinn upp að þeim.“

Hjónin voru köld en ekki blaut og báru sig vel miðað við aðstæður. Þeim var skutlað í Gíslaskála þar sem þurr föt og heitur matur beið þeirra.

Gíslaskáli við Kjalveg.
Gíslaskáli við Kjalveg.

Margra klukkustunda björgunarleiðangur

„Þau voru mjög mjög þakklát fyrir aðstoðina og fannst ótrúlega leiðinlegt að þurfa hringja eftir aðstoð því þau eru vön göngu og útiveru. En þau gerðu rétt, því annars hefðu þau gengið stanslaust í hringi,“ segir Viðar að lokum.

Björgunarsveitir voru komnar til byggða um fimmleytið í morgun og björgunarleiðangurinn tók því hátt í átta klukkustundir.

Samkvæmt upplýsingum frá Gíslaskála lögðu hjónin snemma af stað þaðan í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert