„Ég vil Birgittu ekkert illt“

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, beitti sér gegn því að …
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, beitti sér gegn því að Birgitta Jónsdóttir tæki sæti í trúnaðarráði flokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég stend við hvert orð sem ég sagði í þessari ræðu. En það var ekkert ætlun mín að þetta færi í fjölmiðla. Ég vissi auðvitað af því fyrirfram að það gæti gerst og var algerlega reiðubúinn undir það. En fyrir mér er þetta innanflokksmál og þó það sé auðvitað fjölmiðla að ákveða hvað eigi erindi við almenning þá var svo ekki frá mínum bæjardyrum séð.“

Þetta segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, í samtali við mbl.is vegna félagsfundar hjá Pírötum í gær þar sem kosið var til trúnaðarráðs flokksins. Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata, sóttist eftir sæti í ráðinu en hlaut ekki kosningu. Fyrir kosninguna hélt Helgi Hrafn ræðu þar sem hann fór hörðum orðum um reynslu sína af samstarfi við Birgittu og lagðist gegn kosningu hennar. Birgitta tók einnig til máls á fundinum og sagðist hafa upplifað ræðu Helga sem „ákveðið mannorðsmorð“, en upptaka frá fundinum fór á netið í kjölfar fundarins og hafa fjölmiðlar fjallað um hana.

Gæti verið frábær í öðrum störfum

Meðal þess sem Helgi Hrafn sagði í ræðu sinni var að Birgitta skapaði ósætti í stað þess að skapa sátt, væri algerlega ófeimin við það og stærði sig af því. Hún krefðist þess að aðrir leituðu álits hjá henni en leitaði ekki álits hjá öðrum og græfi undan samherjum sínum ef hún teldi sér standa ógn af þeim. Þá hótaði hún fólki ef hún fengi ekki það sem hún vildi. Sagðist Helgi hafa haft tvo kosti; segja frá reynslu sinni, vitandi að það gæti ratað í fjölmiðla, eða þegja í þeim efnum. Það síðarnefnda vildi hann hins vegar ekki gera.

Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér þótti ekki mikilvægt að segja þetta við neinn nema þá sem eru í flokknum og tóku þátt í ákvörðun um það hvort Birgitta ætti að vera í þessari trúnaðarstöðu. Það var engin ástæða fyrir mig til að halda þessa ræðu fyrir neina aðra. Ég vil Birgittu ekkert illt, ég bara vil ekki að hún sé í trúnaðarstöðu fyrir flokkinn af þeim ástæðum sem ég nefndi í ræðunni minni. Hins vegar getur vel verið að hún sé alveg frábær í öðrum störfum. En ég myndi ekki vilja hafa hana í trúnaðarstörfum fyrir Pírata,“ segir hann ennfremur.

Helgi Hrafn segist þó ekki gera neina athugasemd við að upptaka af fundinum hafi verið sett á netið þótt hann hafi sjálfur ekki talið efni hans eiga erindi við aðra en flokksmenn. Hins vegar hafi hann gert sér fulla grein fyrir því allan tímann að einhver kynni að taka ræðu hans upp og dreifa henni enda fundurinn öllum opinn og allir velkomnir. Ræðuna hafi hann engu að síður flutt meðvitaður um það. Það hafi hins vegar ekki verið markmið hans og heldur ekki hans verk. En hann standi við hvert orð ræðunnar.

Hegðun í trúnaðarstörfum skiptir máli

„Ég ætla ekki að þegja yfir minni reynslu þegar einhver, sem ég hef unnið mikið með, sækist eftir trúnaðarstöðu. Fólk verður bara að vita það að hegðun þess í trúnaðarstörfum þegar það vinnur með mér skiptir máli ef það sækist eftir trúnaðarstörfum aftur. Ef fólk treystir sér ekki til þess þá getur það bara sleppt því. Þetta er bara sanngjarnt, svona virkar lýðræðið. Ef fólk býður sig fram þá býður það því heim að fólk sem hefur reynslu af störfum manns lýsi þeim og það er það sem ég gerði og stend við hvert orð.“

Birgitta hafi gefið það út í kjölfar fundarins að hún ætli ekki að svara fjölmiðlum og þess í stað einbeita sér að hugðarefnum sínum. „Mig langar að virða það. Mig langar að hún geti bara haldið áfram með líf sitt. Þessi upptaka fór ekki á kreik vegna þess að ég vildi það. Ég vil hins vegar að hún hafi sem flest tækifæri til þess að nýta krafta sína annars staðar. Mig langar ekkert að fjalla meira um það opinberlega. Nú er hún bara orðin óbreyttur borgari og mér finnst að hún eigi rétt á því frelsi sem því á að fylgja.“

mbl.is