Umferðarteppa á Ólafs- og Siglufirði

Mynd tekin við Múlagöng á leiðinni vestur inn í Ólafsfjörð. …
Mynd tekin við Múlagöng á leiðinni vestur inn í Ólafsfjörð. Ökumenn þurfa að anda með nefinu, því göngin eru aðeins ekin í eina átt í einu. Ljósmynd/Aðsend

Langar bílalestir sitja fastar í umferðarteppu við Strákagöng og Múlagöng á Siglufirði og Ólafsfirði því bílum var beint þangað norður vegna lokunar eftir slys á Öxnadalsheiði. Lögreglan kemur því á framfæri við þá sem eiga leið um þessa vegi að á endanum muni greiðast úr stíflunni, þó komi til með að verða tafir.

Olíuflutningabíll valt á Öxnadalsheiði um hádegi í dag sem varð til þess að loka varð hringveginum á þeim stað. Þeir sem hugðust fara Öxnadalinn um hringveginn hvort sem var í austur eða vestur þurftu því að fara norðurleiðina.

Strákagöng inn í Siglufjörð vestanmegin eru einbreið og björgunarsveitarmenn eru að stýra umferð um þau. Að sögn Sævars Ingvarssonar bera göngin ekki svona mikla umferð. Hið sama gildir um Múlagöng, sem liggja á milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur. Þar eru lögreglumenn að stýra umferð, enda göngin einbreið.

Sem betur fer eru Héðinsfjarðargöng tvíbreið, segir Sævar. „Þetta er alveg stappað hérna,“ segir hann en telur að þetta skáni um leið og Öxnadalsheiðin verði opnuð aftur. Þar standa yfir aðgerðir sem beinast að því að lágmarka umhverfisskaða af olíuleka úr flutningabíl sem valt. Ökumaður þess bíls liggur á sjúkrahúsi á Akureyri.

Að sögn Sævars er lokunin á Öxnadalsheiði eina skýringin á þessari umferðarteppu, en þegar hafði verið gengið frá vettvangi umferðarslyss sem varð einnig á svipuðum tíma á Ólafsfjarðarvegi þegar Öxnadalsheiðinni var lokað. Þær aðgerðir töfðu því ekki umferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert