Gríðarleg stemning á Flúðum um versló

Furðubátakeppnin var hörð en skemmtileg í fyrra og mun líklega …
Furðubátakeppnin var hörð en skemmtileg í fyrra og mun líklega verða það í ár aftur. Ljósmynd/Aðsend

„Okkur er að takast það sem við ætluðum okkar, það er að breyta þessu úr djammhátíð í fallega fjölskyldu- og bæjarhátíð,“ segir Bessi Theodórsson, verkefnastjóri Flúðir um versló, í samtali við mbl.is. Fjörið hófst með látum í gær þegar Pálmi Gunnarsson steig á stokk og mun halda áfram næstu daga.

„Það var orðið fullt á tjaldsvæðinu í gærkvöldi og um kvöldmatarleyti var tjaldsvæðinu lokað. Tjaldsvæðismenn ætla nú samt, ef einhverjir fara í dag eins og gerist oft að fólk dvelji hér í einn dag og fari svo annað, að opna tjaldsvæðið á nýjan leik,“ segir Bessi og bætir því við að vel geti verið að það losni pláss í dag.

Allt hefur gengið til fyrirmyndar á Flúðum síðan í gær og hefur hegðun gesta verið til fyrirmyndar. Lögreglan hefur ekki haft í nein horn að líta né gæslan á svæðinu.

Snargeggjaðir sveitalubbar keppa í traktoratorfæru

Í hádeginu opnaði kaffihús og upplýsingamiðstöð í félagsheimilinu sem hugsað er sem afdrep þar sem foreldrar geta tyllt sér niður meðan börnin leika sér fyrir utan.

„Svo er þétt afþreyingardagskrá sem hefst í Lækjargarði með lifandi tónlist. BMX Brós koma og sýna listir sínar en stærsti viðurburðurinn verður traktoratorfæran sem fer fram í ánni niðri í Torfdal klukkan þrjú,“ útskýrir Bessi og er auðheyranlega gríðarlega spenntur fyrir keppninni í ár.

„Þetta eru eldgamlar dráttavélar sem búið er að eiga aðeins við og svo snargeggjaðir íslenskir „rednecks“ að leika sér í ánni, fara í kaf og djöflast. Það voru í kring um tíu þúsund manns hjá mér á þessum viðburði í fyrra og ég á ekki von á færra fólki núna,“ segir hann.

Eyþór Ingi slær svo botn í daginn með tónleikum klukkan níu í kvöld þar sem hann mun flytja helstu rokkperlur frá sjöunda og áttunda áratugnum.

Um tíu þúsund manns voru viðstaddir traktortorfærukeppnina í fyrra.
Um tíu þúsund manns voru viðstaddir traktortorfærukeppnina í fyrra. mbl.is/Sigurður Sigmundsson

„Herra Verslunarmannahelgi“ með stórtónleika og furðubátakeppni

„Dagskráin heldur áfram á morgun og klukkan eitt hefst furðubátakeppni. Það eru krakkar héðan úr sveitinni sem smíða báta úr froðuplasti og fiskikörum og nota foreldrana sem utanborðsmótor,“ bætir hann við.

Leikhópurinn Lotta mætir svo í Lækjargarðinn klukkan eitt á morgun. Brekkusöngur og brenna verður um kvöldið áður en dansleikurinn með Stuðlabandinu hefst.

Annað kvöld mun „Herra Verslunarmannahelgi“ Hreimur Örn Heimisson slá í stórhátíðardansleik með hljómsveitinni Made in Sveitin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert