Ók á dreng og lét sig hverfa

mbl.is/Eggert

Ríflega sjötíu mál komu inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt og gistu fjórir fangaklefa eftir nóttina. Mörg málanna sneru að einstaklingum sem annaðhvort voru undir áhrifum fíkniefna eða áfengis eða hvors tveggja.

Tilkynnt var um að ekið hefði verið á níu ára gamlan dreng í Hafnarfirði í gærkvöldi þar sem hann var að ganga yfir gangbraut. Talið er að meiðsl hans séu minni háttar en hann var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Ökumaðurinn lét sig hverfa af vettvangi.

Karlmaður var handtekinn í Seljahverfi í Reykjavík vegna stórfelldrar líkamsárásar. Fórnarlambið var flutt á slysadeild með sjúkrabifreið til aðhlynningar en árásarmaðurinn færður í fangaklefa. Ekki liggja fyrir upplýsingar um meiðsl fórnarlambsins.

Drengur slasaðist lítillega eftir að hafa dottið á vespu sem hann ók í Breiðholti í Reykjavík. Farþegi sem var með drengnum á hjólinu slasaðist ekki en hvorugur þeirra var með hjálm. Málið var afgreitt með aðkomu foreldra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert