Hraustleg rigning fyrir norðan

Það rignir hraustlega fyrir norðan í dag.
Það rignir hraustlega fyrir norðan í dag. mbl.is/Kristinn

Hraustleg rigning hefur verið á Norðurlandi það sem af er þessum sólarhring. Á Siglufirði hefur úrkoman mælst 74 mm og um 50 mm á Ólafsfirði sem er „talsvert mikið“ að sögn Birtu Lífar Kristinsdóttur veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Íbúar á Norðurlandi eru hvattir til að hreinsa niðurföll því áfram er búist við rigningu fram eftir degi.  

Gul viðvör­un er í gildi víða á land­inu fyrir Faxa­flóa­svæðið, Strand­ir, Norður­land vestra, Norður­land eystra, Aust­ur­land að Glett­ingi, Aust­f­irði og miðhá­lendið. Á þessu svæði er ýmist hvassviðri, rign­ing eða snjó­koma.

Í dag má áfram búast við vænum gusum á Ströndum og annesjum á Tröllaskaga. Það dregur úr rigningunni fyrst austan til þegar líður á daginn. Kröftugur vindur er einnig á Austurlandi og Vesturlandi. 

„Það er ástæða til að vara fólk við sem ferðast um landið vestanvert á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind,“ segir Birta Líf en tekur fram að vindurinn sé þó ekki eins mikill og veðurlíkönin sýndu. Vindurinn hefur þó farið upp 20 metra á sekúndu þegar mest hefur látið. 

Gul yfirlýsing var gefin út því óvenju hvasst er miðað við árstíma og margir leggja land undir fót í þessum sumarmánuði. 

„Útlit er fyrir að spáin næstu viku til 10 daga sé veðrið kaldara en venjulega er í ágúst ef miðað er við meðal ágústmánuð,“ segir Birta Líf. Hlýjast verður á suðvesturlandinu og útlit fyrir að hitinn eigi eftir að fara upp í 16 gráður á miðvikudaginn sem verður líklega hlýjasti dagurinn í vikunni. Til samanburðar verður hitinn fyrir norðan um 10 gráður á sama tíma. 

Norðlendingar fá meiri rigningu en Sunnlendingar og enginn breyting virðist vera í þeim efnum á næstunni. Á sunnudaginn gætu orðið skúraleiðingar á Suðurlandinu en enginn rigning að ráði.  

„Þegar þessum kafla í dag lýkur verður veðrið rólegt,“ segir Birta Líf.   

mbl.is