Vælir ekki yfir veðurguðunum

Óskar Þór Guðmundsson á Fljótsdalsheiðinni í dag.
Óskar Þór Guðmundsson á Fljótsdalsheiðinni í dag. Ljósmynd/Málfríður Ægisdóttir

Norðanáttin hefur gert hjólreiðagarpinum Óskari Þór Guðmundssyni lífið leitt á fyrstu þremur dögum hans yfir hálendið frá Fáskrúðsfirði til Reykjavíkur.

„Ég er búinn að fá mjög slæmt veður fyrstu þrjá dagana. Það gengur ekki neitt rosalega hratt í augnablikinu en spáin er skárri fyrir morgundaginn og hinn upp á vind að gera,“ segir Óskar Þór, sem var staddur á Fljótsdalsheiðinni „í roki og skemmtilegheitum“ þegar blaðamaður sló á þráðinn til hans.

Varð að teyma hjólið í rokinu

Þegar til Reykjavíkur er komið mun hann taka þátt í Reykja­vík­ur­m­araþon­inu 24. ág­úst. Hann hleyp­ur og hjól­ar til styrkt­ar Sam­hjálp. Ferðalagið er 620 kílómetrar í heild sinni og vonaðist hann áður en ferðalagið hófst til að hjóla um 60 til 70 kílómetra dag. Þegar blaðamaður ræddi við hann hafði hann lokið um 100 km. Fyrsta daginn hjólaði hann 55 km og þann næsta fór hann 42. „Það er stutt síðan ég byrjaði að hjóla í dag því það er búið að vera svo hvasst,“ segir Óskar Þór, sem þurfti að teyma hjólið hluta af gærdeginum þegar rokið er hvað mest. „Við stjórnum þessu ekki, það eru veðurguðirnir. Það þýðir ekkert að vera að væla yfir því.“

Aðspurður segir hann að kalt hafi verið í veðri. „Það snjóar bara hérna í fjöllin. Það er ekkert voðalega hlýtt en manni verður ekki kalt á meðan maður er að hjóla. En það er vonandi að veðurguðirnir fari að láta norðanrokinu linna.“

Óskar Þór hjólar í átt að Laugarfelli. Við það stendur …
Óskar Þór hjólar í átt að Laugarfelli. Við það stendur samnefndur fjallaskáli þar sem staðarhaldari bauð þeim gistingu síðastliðna nótt, sem þau voru mjög þakklát fyrir. Ljósmynd/Málfríður Ægisdóttir

„Það er þrjóska í honum“

Konan hans, Málfríður Ægisdóttir, keyrir bæði á undan og eftir honum á jeppa. Þar getur hann hlýjað sér og tekið sér matarpásur, auk þess sem jeppinn er búinn þaktjaldi þar sem hann getur sofið.

Málfríður segir að norðanáttin hafi reynst manni sínum erfið. Hann hafi fengið hana í fangið bæði í gær og fyrradag. „Ég vildi taka hann í bílinn í Bessastaðabrekku en hann vildi fara upp á heiðina sjálfur. Það er þrjóska í honum,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert