Eldur í íbúðarhúsi í Vestmannaeyjum

mbl.is/Eggert

Eldur kviknaði í húsi í Vestmannaeyjum í nótt. Fjölskylda sem býr í húsinu var í fastasvefni er eldurinn kom upp. Að sögn lögreglunnar í Vestmannaeyjum vaknaði faðirinn við eldinn og kom fjölskyldunni út.

Tilkynnt var um eldinn um fjögurleytið í nótt og var fjölskyldan öll komin út þegar slökkvilið og lögregla komu á staðinn. Var maðurinn fluttur á sjúkrahús til skoðunar, en aðrir í fjölskyldunni virðast hafa sloppið ómeiddir.

Að sögn lögreglu logaði eldurinn í einu herbergi í húsinu og gekk vel að ráða niðurlögum hans. Tvær íbúðir eru í húsinu.

Nokkrar skemmdir urðu á húsinu af völdum sóts og reyks, en eldsupptök liggja ekki fyrir og er rannsókn málsins á frumstigi.

mbl.is