Hinsegin tónlist og tímabundin tattú

Una Torfadóttir.
Una Torfadóttir. Ljósmynd/Aðsend

Baráttu- og tónlistarkonan Una Torfadóttir hefur lengi verið dugleg að semja ljóð og texta. Í grunnskóla samdi hún verkið Elsku stelpur sem hún flutti ásamt öðrum stúlkum fyrir hönd Hagaskóla í Skrekk og sem vakti mikla athygli. Í kvöld mun hún flytja frumsamda hinsegin tónlist í tilefni tuttugustu Hinsegin daga á Íslandi. 

„Hinsegin tónlist fyrir mér er bara tónlist eftir hinsegin fólk. Hún má fjalla um hvað sem er, það sem skiptir máli er að hlusta á hinsegin listafólk og sjá heiminn með þeirra augum, og að heimurinn er stærri en svefnherbergi. Hinsegin líf er margþætt og hinsegin tónlist fjölbreytt eftir því,“ segir Una í samtali við mbl.is. 

„Þetta eru í rauninni fyrstu Hinsegin dagarnir sem ég tek þátt í síðan ég kom út úr skápnum. Ég hef verið að vinna mikið úti á landi eða á ferðalögum síðustu sumur þannig ég hef ekkert komist í gleðina í nokkur ár og er rosalega spennt. Þetta er mjög spennandi allt saman.“

Samið ljóð og texta síðan hún man eftir sér

Una er 19 ára gömul og útskrifaðist með stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík í vor. Hún segist lengi hafa dundað sér við að semja ljóð og sögur og að í efstu bekkjum grunnskóla hafi hún farið að semja tónlist. 

Una Torfadóttir.
Una Torfadóttir. Ljósmynd/Aðsend

„Ég byrjaði að semja tónlist af einhverju viti þegar ég var í níunda bekk í grunnskóla. Lögin sem ég er að flytja í kvöld eru bæði gömul og ný. Ég hugsaði að þetta væri kjörið tækifæri til að setja af stað tónleika sem ég hef lengi hugsað um að halda. Og gera það einmitt við þetta tilefni, Hinsegin daga. Ég er búin að vera að skrifa bara alveg síðan ég man eftir mér, sögur og ljóð og allskonar.“

Una segist lýsa tónlist sinni sem Indí-poppi og hún semur texta sína við lögin á íslensku. Vill hún með lögum sínum minna fólk á að ást er allskonar. „Textarnir eru mjög persónulegir og fjalla aðallega um ástina og lífið,“ segir Hún. 

Persónulegar upplifanir af ást og erfiðleikum

Aðspurð hvort að ljóðin sem Una flytur í kvöld eigi margt sameiginlegt með Elsku stelpum segir hún svo ekki vera. 

Una á lagasmíðakeppni MR.
Una á lagasmíðakeppni MR. Ljósmynd/Hrefna Svavars

„Ég myndi ekki segja það. Þetta er í rauninni miklu persónulegra og um mig og mínar upplifanir af ástinni og erfiðleikum og höfnun, en líka gleðinni. Þetta er í rauninni einstaklingssjónarmið einnar stelpu á meðan Elsku stelpur er miklu meira universal og fjallar um þessa heildarupplifun stelpna á Íslandi.“

Elsku stelpur vakti mikla athygli á sínum tíma, en í atriðinu er deilt hart á feðraveldið, karlrembu og kyngervingu stúlkna. Í kjölfarið af Elsku stelpur hélt Una, ásamt Margréti Snorradóttur vinkonu sinni, TEDx-spjall hér í Reykjavík sem bar yfirskriftina „Þegar stelpur taka pláss“.

Stelpur styrkja hvor aðra

„Elsku stelpur gaf mér mjög aukið sjálföryggi, bæði sem penni en líka bara sem stelpa. Það getur verið mjög erfitt að trana sér fram í þessum bransa sem er mjög karllægur og að þora að taka af skarið. Það sem Elsku stelpur kenndi mér einna helst var hvað ég bý vel að þekkja allar þessar sterku stelpur í kringum mig.

„Í undirbúningum fyrir þessa tónleika er ég búin að fá gríðarlega mikla hjálp frá vinkonum mínum sem hafa enga sérstaka reynslu af því að setja upp tónleika, en við hjálpumst að og finnum alltaf leiðir til að styrkja hvor aðra. Það er eitthvað sem Elsku stelpur kenndi mér.“

Una segist hafa lagt mikið upp úr því að hafa tónleikana í kvöld ókeypis. Hún fékk þó þá hugmynd að selja tattú-myndir eftir sjálfa sig fyrir áhugasama. Tónleikarnir bera yfirskriftina Annars konar og fara fram á Loft hostel klukkan níu í kvöld. 

„Ég ætla að selja svona tímabundin tattú eins og maður fékk í tyggjópökkum þegar maður var yngri. Þá getur fólk fengið smá bút af minni hönnun og tekið með sér út í næsta dag.“
mbl.is